Namibískt dótturfyrirtæki Samherja greiddi fyrir kvóta með millifærslum inn á reikning tveggja lögmannsstofa. Þetta er fullyrt í fréttnamibíska miðilsins The Namibian í dag. RÚV greindi fyrst frá hérlendra miðla.
Í frétt miðilsins segir að greiðslurnar hafi verið fyrir afmarkaðan hluta kvótans. Þær hafi verið eyrnamerktar verkefnum um styrkingu félagslegra innviða í landinu. Fullyrt er að Swapo, stjórnarflokkurinn í Namibíu, hafi í staðinn nýtt þær í kosningabaráttu sinni.
Namibian segir ennfremur að fyrirtæki í eigu Samherja hafi greitt um 51 milljón namibískra dollara, eða því sem nemur um 467 milljónum íslenskra króna, inná reikninga lögmannsstofanna De Klerk Horn og Coetzee auk Sisa Namandje and Co. Fjárhæðirnar hafi farið í gegnum reikninga stofanna árið 2017.
Er haft eftir þremur embættismönnum úr sjávarútvegsráðuneyti landsins að greiðslurnar hafi átt að fara í samfélagsleg verkefni. Mikil fátækt er í Namibíu og áttu tekjur af þessum ákveðna hluta kvótans að fara í verkefni sem miða að því að styrkja jaðarsetta samfélagshópa, svo sem fyrrverandi hermenn auk þeirra sem illa hafa farið út úr nýlegum þurrkum í landinu.
Fullyrt er í umfjöllun miðilsins að ACC, spillingarlögregla Namibíu, hafi staðfest að fjármunirnir hafi farið í að fjármagna kosningabaráttu Swapo, eftir að hafa farið í gegnum reikninga lögmannsstofanna.