Namibískt dóttur­fyrir­tæki Sam­herja greiddi fyrir kvóta með milli­færslum inn á reikning tveggja lög­manns­stofa. Þetta er full­yrt í fréttnamibíska miðilsins The Namibian í dag. RÚV greindi fyrst frá hér­lendra miðla.

Í frétt miðilsins segir að greiðslurnar hafi verið fyrir af­markaðan hluta kvótans. Þær hafi verið eyrna­merktar verk­efnum um styrkingu fé­lags­legra inn­viða í landinu. Full­yrt er að Swa­po, stjórnar­flokkurinn í Namibíu, hafi í staðinn nýtt þær í kosninga­bar­áttu sinni.

Namibian segir enn­fremur að fyrir­tæki í eigu Sam­herja hafi greitt um 51 milljón namibískra dollara, eða því sem nemur um 467 milljónum ís­lenskra króna, inná reikninga lög­manns­stofanna De Klerk Horn og Coetzee auk Sisa Namandje and Co. Fjár­hæðirnar hafi farið í gegnum reikninga stofanna árið 2017.

Er haft eftir þremur em­bættis­mönnum úr sjávar­út­vegs­ráðu­neyti landsins að greiðslurnar hafi átt að fara í sam­fé­lags­leg verk­efni. Mikil fá­tækt er í Namibíu og áttu tekjur af þessum á­kveðna hluta kvótans að fara í verk­efni sem miða að því að styrkja jaðar­setta sam­fé­lags­hópa, svo sem fyrr­verandi her­menn auk þeirra sem illa hafa farið út úr ný­legum þurrkum í landinu.

Full­yrt er í um­fjöllun miðilsins að ACC, spillingar­lög­regla Namibíu, hafi stað­fest að fjár­munirnir hafi farið í að fjár­magna kosninga­bar­áttu Swa­po, eftir að hafa farið í gegnum reikninga lög­manns­stofanna.