Full­yrt er í namibískum fjöl­miðlum að Geysir, skip Sam­herja, hafi yfir­gefið landið fyrir­vara­laust og án skýringa til á­hafnar­með­lima. RÚV greinir fyrst frá hér­lendra miðla en öðru skipi Sam­herja, Sögu, var siglt til Las Pal­mas á Kanarí­eyjum fyrir helgi.

Spillingar­lög­regla Namibíu, ACC, hefur ráð­lagt stjórn­völdum að meina skipum Sam­herja að yfir­gefa landið, að lög­reglunni for­spurðri. Í frétt the Namibian Sun er full­yrt að á­hafnar­með­limir Geysis, sem eru um hundrað talsins, hafi ekki fengið neinar skýringar á brott­för skipsins. Einungis að skipið myndi snúa aftur þegar það væri komið með nýjan kvóta.

Fyrir helgi höfðu namibískir á­hafnar­með­limir Sögu fengið smá­skila­boð þar sem þeim var gert að sækja eigur sínar um borð án tafar. Skipið væri á leið til Las Pal­mas, í við­gerð.

Áður hafði namibíski frétta­vefurinn New Era haft eftir Paulus Noa, yfir­manni namibísku spillingar­lög­reglunnar, að rann­sókn yfir­valda á Sam­herja­skjölunum svo­kölluðu sé gríðar­lega mfangs­mikil. Búist sé við því að fleiri hand­tökur séu fram­undan vegna málsins.

Full­yrt er í frétt miðilsins að namibísk yfir­völd rói nú að því öllum árum að fá Sögu til baka til Namibíu. Eins og fram hefur komið eru nokkrir fyrr­verandi ráð­herrar og ein­staklingar tengdir þeim, í gæslu­varð­haldi vegna málsins. Þeir eru grunaðir um spillingu, fjár­svik og mútu­þægni í tengslum við málið.