Viðmælendur Markaðarins telja að horfurnar á skuldabréfamarkaði á næstu árum geti verið góðar þó að aðstæður hafi verið afar krefjandi á undanförnum misserum.Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, segir að skuldabréfamarkaðurinn geti komið til með að reynast áhugaverður fjárfestingakostur á næstu árum.

„Ég tel að horfurnar á skuldabréfamarkaði á næstu árum geti verið góðar. Við erum að koma úr mjög lágu vaxtastigi og Covid var rúsínan í pylsuendanum varðandi lækkun kröfunnar á skuldabréfamarkaði,“ segir Valdimar og bætir við að nú sé krafan búin að hækka og seðlabankar um allan heim hafi sameinast í því að hækka vexti og minnka peningaprentun í baráttunni gegn verðbólgunni.

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance.

„Hérna heima erum við á undan löndunum í kringum okkur því við byrjuðum að hækka vexti fyrr og betur en margir aðrir. Því tel ég að skuldabréfamarkaðurinn núna og næstu misseri geti verið mjög áhugaverður og vegna hækkunar kröfunnar og breytingar á verðlagningu geti menn farið að skoða skuldabréfaútgáfur fyrirtækja og slíkt.“

Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskóla Íslands, segir að á komandi árum muni skuldabréf verða álitlegur fjárfestingakostur bæði fyrir erlenda og innlenda fjárfesta.

„Ég tel að á komandi árum verði skuldabréfamarkaðurinn klárlega álitlegur fjárfestingakostur fyrir innlenda fjárfesta en líka þá erlendu sem eru tilbúnir að taka á sig gengissveiflur íslensku krónunnar,“ segir Már og bætir við að ávöxtunarkrafan gefi það til kynna.

„Mínar væntingar segja að við séum í andstöðu þess umhverfis sem ríkti um miðbik 2020 til loka þess árs þegar krafan á lengri bréfunum var í kringum 2,5 prósent til 3 prósent.“Már bendir á að krafan í dag sé tvöfalt hærri, eða í kringum 5,5 á lengri bréfunum.

„Því er ágætis kauptækifæri í dag á skuldabréfamarkaði. Það er augljóst að verðbólguálag er búið að myndast á lengri endann í háa herrans tíð. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn frá hruni þar sem ávöxtunarkrafa stuttra skuldabréfa hefur verið hærri heldur en lengri en það eru skýr skilaboð um að flestir telji að núverandi verðbólga muni hjaðna á næstu árum.“

Már bætir við að erfitt sé að segja hversu hratt og að hvaða marki verðbólgan muni koma til með að lækka hér á landi því að þetta mikla verðbólguskot hafi komið mörgum á óvart.

Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.
Aðsend mynd.

„Á sama tíma lækkaði ávöxtunarkrafa á lengri skuldabréfunum í fyrradag og það er klárlega vegna væntinga um að stríðinu í Úkraínu ljúki bráðlega en það myndi hafa jákvæð áhrif bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkað.“

Már segir að ef stríðinu ljúki annað hvort á þann veg að Úkraínumenn beri sigur úr býtum eða ef sest verði að samningaborðinu myndi það draga verulega úr hækkun á hrávörum.

„Það myndi leiða til minni verðbólguþrýstings sem myndi þá lækka verðbólguálag á óverðtryggðum bréfum.“

Valdimar bendir á að undanfarin misseri hafi markaðsaðstæður verið virkilega krefjandi sökum hækkandi stýrivaxta. Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hafi hækkað linnulaust á árinu og í raun hafi markaðurinn verið að aðlaga sig hærri verðbólgu og verðbólguvæntingarnar hafi verið að hækka.

„Markaðurinn hefur verið að verðleggja inn vaxtahækkunarferli hjá Seðlabankanum, þó eru vísbendingar sem sýna að Seðlabankinn sé nálægt toppinum í vaxtahækkunarferlinu og ný verðbólgumæling sýndi að árstakturinn sjatnaði aðeins,“ segir Valdimar og bætir við að því til viðbótar séu merki um að fasteignamarkaðurinn sé að kólna og hrávöruverðið fari lækkandi.

„Þá geta skuldabréfafjárfestar farið að skoða aftur fjárfestingar í lengri tíma skuldabréfum og hugsa með sér hvort ávöxtunarkrafan sé á áhugaverðum stað miðað við allt saman.“

Valdimar segir að það sem veki athygli sé hvað verðbólguvæntingar eru háar til langs tíma og það hljóti að valda Seðlabankanum töluverðum áhyggjum hversu háar þær séu.

„Maður hefði haldið að þeir myndu vilja sjá verðbólguvæntingarnar koma niður samhliða takti verðbólgunnar. Því í rauninni er það ekki trúverðugleiki á peningastefnunni ef verðbólguvæntingar leita ekki niður í markmið til lengri tíma.“

Valdimar bendir á að töluverð óvissa sé í heimshagkerfinu um þessar mundir. Stríð geisi í Evrópu sem ekki sér fyrir endann á. Þá eru þreifingar í kringum Taívan í Asíu og óvissa í Evrópu um hvernig fyrirtækin muni koma til með að höndla nýtt vaxtastig. Þar að auki eigi afleiðingar af háu orkuverði eftir að koma í ljós.

„Það mun líklega hafa þær afleiðingar að almenningur mun draga úr annarri neyslu til að geta borgað hita og rafmagn. Við erum að sjá viðskiptahalla í Þýskalandi sem hefur verið mjög lítið um. Þýskaland hefur verið burðarliðurinn í Evrópu en staða þess er að veikjast.“

Valdimar bætir við að þessi staða geti komið til með að hafa áhrif á skuldabréfamarkaðinn.

„Maður hefði haldið að eftir að krafan hefði hækkað gætu skuldabréfin farið að veita skjól ef gefur á bátinn. Undanfarið hefur það verið þannig að fjöldi eignaflokka hefur lækkað í verði, hvort sem það eru hlutabréf, skuldabréf eða rafmyntir. Nú gefur hækkandi ávöxtunarkrafa tækifæri til að leita skjóls í, ef eitthvað bjátar á í hagkerfi heimsins.“