Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir bankann hafa mikla trú á vaxtatækinu. Lægri vextir eigi að koma sér vel við núverandi aðstæður.

„Íslensku bankarnir eru að einhverju leyti sérstakir í evrópskum samanburði þar sem þeir þjónustu að miklu leyti atvinnulífið. Stór hluti af skuldum fyrirtækja er með breytilegum vöxtum. Og ef þessi fyrirtæki þurfa á lausafjárfyrirgreiðslu að halda er mjög líklegt að hún verði á breytilegum vöxtum.

Við teljum að lægri vextir ættu að hjálpa til við þessa fyrirgreiðslu og almennt að koma sér vel,“ sagði Ásgeir á kynningarfundi í Seðlabankanum í morgun í tilefni af þeirri ákvörðun peningastefnunefndar að lækka stýrivexti um hálft prósentustig.

Meginvextir Seðlabankans verða því 2,25 prósent og hafa lækkað um 2,25 prósentustig frá því í maí í fyrra. Kemur vaxtalækkunin til í ljósi versnandi efnahagshorfa í kjölfar aukinnar útbreiðslu kórónaveirunnar.

Ásgeir nefndi auk þess að hluti af því hvernig fjármálakerfið hefði verið endurbyggt í kjölfar fjármálahrunsins fyrir meira en tíu árum væri fólgið í því að bankarnir væru innlánafjármagnaðir og jafnframt fjármagnaðir í innlendri mynt. Nær allir íslenskir aðilar væru með lán í krónum. Af þeim sökum væri peningastefnan mun öflugri og áhrifaríkari en áður fyrr.

Aðspurður benti seðlabankastjóri þó á að áfallið væri þess eðlis að það tæki vextina lengri tíma að hafa áhrif. Þeir væru ekki að fara að breyta heildarmyndinni á tveimur til þremur mánuðum.

„En við teljum allavega að við séum með þessu að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að hjálpa til við meðal annars fjármögnun atvinnulífsins og lausafjárfyrirgreiðslu í gegnum þessa erfiðleika,“ sagði Ásgeir.