Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í júní hækkaði um 2,2 prósent á milli mánaða og á síðastliðnum 12 mánuðum hækkaði hún um 25 prósent. Þetta kemur fram í tölum frá Þjóðskrá. Fjölbýli hækkaði um 2,6 prósent meðan sérbýli hækkaði um 0,8 prósent milli mánaða.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að vísbendingar séu um að fasteignamarkaðurinn sé að kólna aðeins.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

„Þetta eru þó að vissu leyti blendin skilaboð í þessum tölum. Það er vissulega hraður mánaðartakturinn en hann er þó sá hægasti síðan í janúar. Það segir sína sögu um hversu mikið er búið að ganga á í millitíðinni,“ segir Jón Bjarki og bætir við að þessi hækkun hafi verið viðbúin.

„Maður hafði væntingar um að takturinn yrði allhraður áfram eins og verið hefur en vonast til að markaðurinn færi að róast og jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar sé að batna.“

Jón Bjarki bendir á að samspil hækkandi vaxta og hertra lánþegaskilyrða kunni að vera farið að bíta í eftirspurn eftir stærri eignum.

„Við höfum séð merki um rólegri markað. Það eru fréttir af því að heldur lægra hlutfall seljist yfir ásettu verði og sölutími sé að lengjast og annað slíkt. Við eigum von á því að það dragi úr hækkunartakti á seinni helmingi ársins,“ segir Jón Bjarki og nefnir í því samhengi að vaxtahækkanir Seðlabankans, hert lánþegaskilyrði, uppsveifla í framboði á nýjum íbúðum og minni væntingar almennings spili saman í að dempa eftirspurnina.