Ársverðbólgan hjaðnar í ágúst í fyrsta sinn síðan á vormánuðum á síðasta ári og mælist nú um 9,7 prósent en ársverðbólgan mældist 9,9 prósent í júlí síðastliðnum. Þetta kemur fram í mælingum Hagstofunnar sem birtar voru í gær. Mæling ágústmánaðar var undir spám Seðlabankans og flestra greiningaraðila.

Í Peningamálum Seðlabankans sem gefin voru út samhliða vaxtaákvörðun bankans í síðustu viku kemur fram að bankinn telji að verðbólga eigi eftir að aukast enn frekar og verði komin í 10,8 prósent á fjórða ársfjórðungi en hjaðni síðan smám saman.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir í samtali við Markaðinn að margir þættir spili inn í spá bankans.

„Við sjáum miklar hækkanir erlendis. Alþjóðleg verðbólga hefur aukist töluvert og meira en við áttum von á,“ segir Þórarinn og bætir við að mikil eftirspurn í þjóðarbúinu hafi átt þátt í kröftugum vexti á öðrum ársfjórðungi.

„Síðan eru þættir eins og sú staðreynd að verðbólgan er búin að vera dálítið mikil og vegna þess að þetta er ársbreyting þá heldur takturinn áfram að vera hár þó svo að það verði minni breyting milli mánaða.“

Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, segist engan veginn skilja hvernig spá Seðlabankans fyrir þennan ársfjórðung hvað varðar verðbólguna gat komið til.

Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis
Aðsend mynd.

„Maður í rauninni skilur ekki þessa spá bankans sem kom út í síðustu viku. Maður skildi hana ekki þá og skilur hana enn síður núna. Við erum búin að sjá liðina olíuverð, flugfargjöld og húsnæðismarkaðinn róast svo nýjustu tölur koma ekki á óvart í því samhengi,“ segir Konráð og bætir við að nýjustu verðbólgutölurnar séu að einhverju leyti fagnaðarefni.

„Það er mikill léttir að fá þessa mælingu sem er svolítið undir væntingum og lítill taktur. En maður vill kannski ekki hrósa sigri strax og það er of snemmt að segja til um hvort við séum búin að vinna bug á verðbólgudraugnum.“

Í Peningamálum kemur fram að verðbólguhorfur í spá bankans gætu reynst of bjartsýnar, sérstaklega ef fyrirtæki fara í vaxandi mæli að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag og að ef víxlverkun launa og verðlags fer af stað gæti það valdið því að mikil verðbólga festist enn frekar í sessi. Spá Seðlabankans hvað verðbólguna varðar eru töluvert dekkri en spár annarra greiningaraðila sem gera ráð fyrir að verðbólgan sé ýmist búin að toppa eða við það að toppa.

Aðspurður hvort bankinn telji líklegt að verðbólgan verði þrálátari en spár bankans gefa til kynna segir Þórarinn hættu á því.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Aðsend mynd.

„Áhættumat okkar er að það sé líklegra að verðbólgan verði meiri en við erum að spá heldur en minni. Ein mæling segir einhverja sögu en við erum fyrst og fremst að horfa á spátímabilið í heild sem eru þessi þrjú ár. Við erum að spá því að hún hjaðni en að hún gæti hjaðnað hægar heldur en við eigum von á.“

Konráð segir að mikilvægt sé að halda því til haga að verðbólgan eins og hún er mæld sé í raun ársgömul sagnfræði. Við horfum á það sem er að gerast yfir tólf mánaða tímabil og þannig, þó að verðlag myndi standa í stað næstu mánuði, yrði verðbólgan samt mikil.

„Þess vegna var jákvætt að sjá að hækkunin milli mánaða í júlí og ágúst hafi verið í takt við það sem verið hefur síðustu ár.“

Konráð kveðst ekki ætla að spá hvernig verðbólgan muni þróast næstu mánuði en þó séu jákvæð teikn á lofti.

„Ef þessi þróun heldur áfram þá mun verðbólgan koma ansi hratt niður nú í vetur en það þarf að bíða eftir talsvert skýrari vísbendingum áður en hægt er að fullyrða um það.“

Konráð segir það vera jákvætt að svo virðist sem verðbólguvæntingarnar séu að koma niður.

„Það er þó erfitt að segja til um það. Við þurfum að fá sannfærandi hjöðnun í verðbólgu bæði hér og erlendis til að þær komi niður með sannfærandi hætti.“

Konráð bætir við að jákvætt sé að svo virðist sem bensínverð, flugfargjöld og hrávörur séu að lækka miðað við það sem verið hefur.

„Ef til dæmis bensín hefði ekki lækkað jafn mikið og raun ber vitni þá hefði lækkun milli mánaða verið hálft prósent þannig að það er svona ákveðinn léttir og gefur góða vísbendingu um framhaldið.“

Svigrúm til að lækka vexti gæti myndast á næsta ári

Konráð segir að viðbúið sé að Seðlabankinn muni hækka vexti meira en í ljósi þeirrar sviðsmyndar sem markaðsaðilar og Seðlabankinn hafa teiknað upp þá gæti myndast svigrúm til að lækka vexti á ný á næsta ári.

„Þeir munu sennilega hækka eitthvað í millitíðinni en ef við erum komin yfir þessar mestu hækkanir vegna húsnæðismarkaðarins þá er líklegt að við munum sjá Seðlabankann taka minni skref í vaxtahækkunum en verið hefur. Aftur á móti þurfum við að sjá verðbólguna stefna niður í markmið til þess að unnt sé að lækka vexti.“