Upp­bygging svo­kallaðs þjóðar­sjóðs, sem komið verður á fót verði frum­varp Bjarna Bene­dikts­sonar fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra sam­þykkt, er ó­þörf. Þetta segir annar minni­hluti efna­hags- og við­skipta­nefndar í nefndar­á­liti sínu en hann skipar Þor­steinn Víg­lunds­son, þing­maður Við­reisnar.

Í á­litinu reifar Þor­steinn á­stæður sínar fyrir því hvers vegna hann telur ó­rök­rétt að koma á fót þjóðar­sjóði. Í fyrsta lagi sé um að ræða tekjur af sjálf­bærum auð­lindum, orkunni það er að segja, en ekki ó­sjálf­bærum eins og í til­fellum annarra þjóðar­sjóða, til dæmis olíu­sjóðsins norska. Því sé ekki fyrir­sjáan­legt að tekju­streymi vegna auð­lindanna taki enda í fyrir­sjáan­legri fram­tíð.

Í öðru lagi segir hann líf­eyris­kerfi lands­manna þegar fjár­magnað með sjóð­söfnun og það með því öflugasta á al­þjóða­vísu. Eignir líf­eyris­sjóðanna nemi tæp­lega tvö­faldri lands­fram­leiðslu sem er eitt hæsta hlut­fall í heimi. Þá sé gjald­eyris­vara­forði Seðla­banka Ís­lands öflugur. Upp­bygging forðans hafi farið fram hér á landi og á­vöxtun hans verið góð. Ekki sé þörf á að byggja upp þjóðar­sjóð til að styrkja gjald­eyris­vara­forðann neitt frekar.

Einnig segir hann að lög um opin­ber fjár­mál eigi að tryggja að stjórn ríkis­fjár­mála sé á­vallt með þeim hætti að ríkis­sjóður sé full­fær um að takast á við tíma­bundin á­föll. Að lokum segir hann hag­kvæmara að láta við­bótar­tekjur greiða niður ó­fjár­magnaðar líf­eyris­skuld­bindingar sem nema rúmum 600 milljörðum króna eins og staðan er í dag.

Í ný­legri breytingar­til­lögu og nefndar­á­liti meiri­hluta, sem birt var á vef Al­þingis í gær, segir að „að stjórn Þjóðar­­sjóðs skuli fela aðila með við­hlítandi sér­­þekkingu á er­­lendum fjár­­mála­­mörkuðum að annast vörslu sjóðsins, á­­vöxtun og dag­­legan rekstur, þar á meðal fjár­­festingar“.

Fyrsti minni­hluti nefndarinnar, sem saman­stendur af þeim Odd­nýju G. Harðar­dóttur, Sam­fylkingunni, og Smára Mc­Cart­hy, Pírötum, varar við því í á­liti sínu að rekstri fyrir­hugaðs þjóðar­sjóðs verði komið í hendur einka­aðila. Brýnt sé að Seðla­bankinn taki við rekstrinum en bankinn hefur lýst yfir vilja til að sjá um dag­legan rekstur og stýringu sjóðsins.