Líkamsræktarstöðin World Class hefur sagt upp 90 starfsmönnum en uppsagnirnar taka gildi um áramótin. Þetta staðfestir Björn Leifsson, eigandi og framkvæmdastjóri World Class í samtali við RÚV.

Fólki var sagt upp á ýmsum sviðum innan fyrirtækisins, þó aðalega starfsfólki í afgreiðslu og barnagæslu.

Í byrjun nóvember var 50 manns sagt upp hjá fyrirtækinu en nú hefur verið gripið til þeirra ráðstafana að segja einnig upp öllum þeim sem voru í starfshlutfalli undir 70%, sem  hlutabótaleið nær ekki yfir.

Björn segir í samtali við RÚV að World Class hafi orðið af 1,3 milljörðum í tekjum það sem af er þessu ári. Ekki sé hægt að halda svona áfram og uppsagnirnar hafi því miður verið það eina í stöðunni. Um 200 manns starfa hjá fyrirtækinu eftir uppsagnirnar.

Líkamsræktarstöðvum var gert að loka þann 5. október síðastliðinn vegna sóttvarnaaðgerða en ekki liggur fyrir hvenær þær fái að opna á ný.