„Það er augljóst að það hefur rifnað upp af sárum. Ekki bara frá hruninu 2008 heldur líka frá einkavæðingunni um aldamótin. Það hefur augljóslega aldrei gróið um heilt í þeim efnum,“ segir Katrín Júlíusdóttir í sjónvarpsþættinum Markaðurinn.

Katrín telur jafnframt að traust verði aldrei byggt upp með því að segja fólki að treysta, heldur sé það gert með verkum. Það hafi gengið ágætlega síðustu ár en nú verði að bíða og sjá hverjar afleiðingarnar verða af umræðu liðinna vikna og svo niðurstöðu þeirra rannsókna sem hafa verið boðaðar.

Á árunum eftir efnhagshrun sýndu kannanir að traust almennings til bankakerfisins hafði hrunið niður í 4 prósent. Síðan þá hafa mælingar sýnt að tiltrúin hefur aukist hægt og bítandi. Katrín segir ótrúlega mikilvægt að almenningur, og raunar allar stoðir samfélagsins, geti treyst fjármálafyrirtækjum. Þetta séu samfélagslega mikilvæg fyrirtæki sem gegni veigamiklu hlutverki í lífi fólks og samfélaginu í heild.

Rætt verður ítarlega við Katrínu á Hringbraut í kvöld klukkan 19.