Páll Páls­son, fast­eigna­sali, segir að stýri­vaxta­hækkun og að­gerðir Seðla­bankans hafi skilað árangri þrátt fyrir erfiðleikana sem fylgdu í kjölfarið.

„Ef þú horfir á þetta hlut­laust, hefðum við viljað halda á­fram að sjá þessa eina til fjögurra milljón króna hækkun í hverjum mánuði á fast­eignum? Við verðum að hafa það í huga að fólk er náttúr­lega að skuld­setja sig fyrir þessum eignum.“

Á þeim tíma sem verð á fast­eigna­markaðnum hefur staðið í stað hefur leigu­verð hins vegar rokið upp. Meðal­leigu­verð er nú komið í 224 þúsund krónur á mánuði og að sögn hans kostar nú þriggja her­bergja íbúð í Hlíðunum í kringum 280 til 300 þúsund í leigu á mánuði.

Hann bætir við að þó svo að fast­eigna­markaðurinn hafi verið aðal drif­krafturinn fyrir vaxta­hækkanir þá hafi aðrir þættir komið inn í líka.

„Við endum í 9,6 prósent verð­bólgu og sáum svo að flug­miðar í neyslu­vísi­tölunni hækkuðu um 20 prósent og þá var allt í einu ekki lengur hægt að lækka vexti,“ segir Páll.

Hann spáir því að sjö til átta þúsund fast­eigna­samningar verði gerðir á næsta ári og bætir við að flestir sér­fræðingar spá einnig í kringum 0 til 5 prósenta hækkun á fast­eigna­markaði.

„Það mun þýða að 60 milljón króna eign mun kosta eftir eitt ár, miðað við 5 prósenta hækkun, 63 milljónir. Nú ættu hins vegar að vera komnar að­stæður til þess að fara byrja lækka vextina vegna þess að hækkun á fast­eignum hefur alltaf verið aðal á­stæðan fyrir því að vaxta­hækkun hefur átt sér stað, en nú eru engar af­sakanir.“

Fast­eigna­sala á lands­vísu fyrir árið 2022 var rúm­lega 33 prósent minni en hún var í fyrra. Í heildina seldust 7.774 fast­eignir til 1. nóvember í saman­burði við 11.549 á sama tíma í fyrra. Þetta sam­svarar 777 fast­eigna­samningum að meðal­tali fyrir árið í ár í saman­burði við 1.140 árið 2021.

Árs­hækkun á fast­eigna­verði var í kringum 20 prósent en lang­stærsti hluti þeirrar hækkunar, eða um 15,5 prósent, átti sér stað á fyrstu sjö mánuðum ársins. Frá og með 1. júlí til dagsins í dag var hækkunin tæp­lega 1,1 prósent.

Sam­kvæmt Hús­næðis- og mann­virkju­stofnun þá hefur greiðslu­byrði á höfuð­borgar­svæðinu hækkað um 34.7 prósent miðað við verð­tryggð lán og 105,1% miðað við ó­verð­tryggð lán.