Páll Pálsson, fasteignasali, segir að stýrivaxtahækkun og aðgerðir Seðlabankans hafi skilað árangri þrátt fyrir erfiðleikana sem fylgdu í kjölfarið.
„Ef þú horfir á þetta hlutlaust, hefðum við viljað halda áfram að sjá þessa eina til fjögurra milljón króna hækkun í hverjum mánuði á fasteignum? Við verðum að hafa það í huga að fólk er náttúrlega að skuldsetja sig fyrir þessum eignum.“
Á þeim tíma sem verð á fasteignamarkaðnum hefur staðið í stað hefur leiguverð hins vegar rokið upp. Meðalleiguverð er nú komið í 224 þúsund krónur á mánuði og að sögn hans kostar nú þriggja herbergja íbúð í Hlíðunum í kringum 280 til 300 þúsund í leigu á mánuði.
Hann bætir við að þó svo að fasteignamarkaðurinn hafi verið aðal drifkrafturinn fyrir vaxtahækkanir þá hafi aðrir þættir komið inn í líka.
„Við endum í 9,6 prósent verðbólgu og sáum svo að flugmiðar í neysluvísitölunni hækkuðu um 20 prósent og þá var allt í einu ekki lengur hægt að lækka vexti,“ segir Páll.
Hann spáir því að sjö til átta þúsund fasteignasamningar verði gerðir á næsta ári og bætir við að flestir sérfræðingar spá einnig í kringum 0 til 5 prósenta hækkun á fasteignamarkaði.
„Það mun þýða að 60 milljón króna eign mun kosta eftir eitt ár, miðað við 5 prósenta hækkun, 63 milljónir. Nú ættu hins vegar að vera komnar aðstæður til þess að fara byrja lækka vextina vegna þess að hækkun á fasteignum hefur alltaf verið aðal ástæðan fyrir því að vaxtahækkun hefur átt sér stað, en nú eru engar afsakanir.“
Fasteignasala á landsvísu fyrir árið 2022 var rúmlega 33 prósent minni en hún var í fyrra. Í heildina seldust 7.774 fasteignir til 1. nóvember í samanburði við 11.549 á sama tíma í fyrra. Þetta samsvarar 777 fasteignasamningum að meðaltali fyrir árið í ár í samanburði við 1.140 árið 2021.
Árshækkun á fasteignaverði var í kringum 20 prósent en langstærsti hluti þeirrar hækkunar, eða um 15,5 prósent, átti sér stað á fyrstu sjö mánuðum ársins. Frá og með 1. júlí til dagsins í dag var hækkunin tæplega 1,1 prósent.
Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjustofnun þá hefur greiðslubyrði á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 34.7 prósent miðað við verðtryggð lán og 105,1% miðað við óverðtryggð lán.