Í gær hófust viðskipti í Kauphöllinni með hlutabréf í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Upphaflega var lagt upp með að selja 37 prósenta hlut í fyrirtækinu en tekin var sú ákvörðun að stækka útboðið og selja 45 prósenta hlut í fyrirtækinu. Sú ákvörðun hefur verið gagnrýnd í fjölmiðlum en um þreföld eftirspurn var í tilboðsbók A, sem stóð minni fjárfestum til boða, en aðeins rúmlega einföld í tilboðsbók B, sem ætluð er stærri fjárfestum.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir aðspurð það ekki hafa verið mistök að stækka útboðið.

„Ég tel það ekki hafa verið mistök að stækka útboðið. Við erum sérlega ánægð með hve margir lífeyrissjóðir og stofnanafjárfestar landsins tóku þátt í útboði Nova klúbbsins hf. Í því samhengi má þó ekki gleyma nýlegri fjárfestingu frá stórum stofnanafjárfestum í apríl síðastliðnum, þar með talið sjóða á vegum Stefnis, Íslandssjóða og Landsbréfa, sem styrkti hluthafalista félagsins verulega. Fjárfestingin í apríl var umfangsmikil og nam um 7 milljörðum að kaupvirði, eða 1,5-faldri stærð áskriftarbókar B í almenna útboðinu.”

Margrét bætir við að við úthlutun í áskriftarbók B í almenna útboðinu hafi verið tekið mið af hagsmunum félagsins í því að styrkja hluthafahóp sinn og því frekar teknir inn fleiri stofnanafjárfestar heldur en færri á hærra verði.

„Áhugi almennings á útboðinu var mikill og að teknu tilliti til stækkunar útboðsins fékk almenningur aðeins úthlutað um helmingi þess sem óskað var eftir. Ljóst er að starfsemi Nova klúbbsins hf. hefur mikinn hljómgrunn meðal almennings sem er áhugasamur um að taka þátt í vegferð félagsins til framtíðar og vegna þessa var ákveðið að koma til móts við þá eftirspurn og stækka áskriftarbók A í útboðinu. Pt. Capital fjárfesti fyrst í Nova árið 2016 og er áfram stærsti einstaki hluthafi Nova klúbbsins hf. eftir útboðið, í gegnum eignarhaldsfélag sitt.“

„Ég myndi frekar velja orðið krefjandi fremur en erfiðar. Við höldum okkar striki og höldum áfram að gera það sem við erum að gera. Við munum hlúa vel að rekstrinum og síðan mun markaðurinn bregðast við eins og hann bregst við.“

Margrét segir Nova bjóða sterkan og fjölbreyttan hóp hluthafa velkominn að borðinu og stjórnendur fyrirtækisins horfi björtum augum til framtíðar.

Óhætt er að segja að markaðs­aðstæður um þessar mundir séu erfiðar. Hlutabréfavísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um 23,7 prósent frá áramótum og ljóst er að Seðlabankinn mun ráðast í skarpar vaxtahækkanir á komandi misserum.

Aðspurð hvað henni finnist um að skrá Nova á markað meðan markaðsaðstæður séu jafn erfiðar og þær eru nú, segir Margrét að þrátt fyrir krefjandi aðstæður muni þau halda sínu striki.

„Ég myndi frekar velja orðið krefjandi fremur en erfiðar. Við höldum okkar striki og höldum áfram að gera það sem við erum að gera. Við munum hlúa vel að rekstrinum og síðan mun markaðurinn bregðast við eins og hann bregst við.“

Í lok dags í gær stóð gengi félagsins í 4,63 en það er 9,39 prósenta lækkun frá útboðsgengi félagsins sem var 5,11 krónur. Heildarvelta með bréf Nova í gær nam 616 milljónum króna.