Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að það gangi ekki til lengdar að ferðaþjónustan sé háð ríkisstyrkjum þó svo að bregðast þurfi við skuldavanda greinarinnar.

Í Fréttablaðinu í gær var greint frá því að 77 prósent fyrirtækja í ferðaþjónustu telja mikilvægt að stjórnvöld grípi inn í til að styrkja ferðaþjónustuna á Íslandi.

„Ég held að allir hafi gert sér grein fyrir því frá upphafi að það gangi hreinlega ekki að ferðaþjónustan sé háð ríkisstyrkjum svo árum skiptir,“ segir Jóhannes og bætir við að hann vonist til þess að greinin muni verði búin að taka við sér í sumar.

„Útlitið fyrir sumarið er ágætt en vetrarmánuðirnir verða erfiðir eins og við höfum séð þá og það er mikil óvissa og ekki víst að allar þær bókanir sem eru bókaðar fyrir sumarið haldi. En við bindum vonir við að faraldurinn verði í rénun í sumar og lífið fari að verða eðlilegt aftur.“

Hann bætir við að skuldavandi greinarinnar sé staða sem þurfi að taka á.

„Í nýrri skýrslu frá KPMG og Ferðamálstofu kemur fram að skammtímaskuldir ferðaþjónustunnar séu miklar og að um 800 fyrirtæki séu í miklum vandræðum. Þetta er staða sem þarf að bregðast við.“