Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við Markaðinn það ekki vera sjálfgefið að ríkisstjórnin geri grundvallarbreytingar á opinberum kerfum í tilefni af samningaviðræðum atvinnurekenda og launþega á markaði. Það sé þeirra að ná lendingu sín á milli um kaup og kjör og það sé mikill misskilningur að samningsaðilar eigi einhvers konar kröfu á ríkið í þeim viðræðum.

„Að því sögðu stefnum við auðvitað öll að sama markmiði. Það er að tryggja stöðugleika og hagsæld íslenskra heimila. Það er eðlilegt að ríkið og samningsaðilar vinni saman að því og það samstarf getur tekið á sig ýmsar myndir,“ segir Bjarni og bætir við að mikilvægt sé að samningsaðilar sýni ábyrgð og fórni ekki langtímastöðugleika fyrir skammtímaávinning.

„Auðvitað viljum við öll að kjör heimilanna batni áfram stöðugt með hverju árinu, en á þeirri vegferð gengur ekki að semja um aðgerðir sem á endanum hafa þveröfug áhrif.“

Bjarni segir auk þess að hann hafi lengi talið æskilegt að færa okkur nær því fyrirkomulagi sem þekkist á hinum Norðurlöndunum.

„Við segjum skýrt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að við viljum stuðla að betri vinnubrögðum og aukinni skilvirkni. Þetta viljum við ekki síst gera með styrktu hlutverki ríkissáttasemjara, sem ég geri ráð fyrir að verði útfært nánar á kjörtímabilinu.“

Bjarni kveðst ekki hafa áhyggjur af komandi kjaraviðræðum. „Mín tilfinning er sú að fólk átti sig almennt á þeim hagsmunum sem eru undir og vilji nálgast hlutina af skynsemi. Ef það verður raunin þá sé ég ekki ástæðu til að hafa miklar áhyggjur. En ef viðræðurnar þróast til verri vegar er það auðvitað fljótt að verða áhyggjuefni.“

Bjarni segir að verðbólgan sé þó áhyggjuefni. „Á samræmdan mælikvarða er verðbólga hér minni en víðast hvar í nágrannalöndum, og raunar sú næstlægsta í Evrópu á eftir Sviss. Hins vegar er rétt að við höfum ekki séð viðlíka tölur í langan tíma. Í maí réðumst við þess vegna í mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifunum á viðkvæmustu hópa samfélagsins. Þar voru meðal annars bætur almannatrygginga og húsnæðisbætur hækkaðar verulega og samþykkt að greiða sérstakan barnabótaauka.“

Bjarni bætir við að í júní hafi ríkisstjórnin farið í aðgerðir til að sporna gegn þenslu.

„Þar lækkuðum við ferðakostnað ríkisins umtalsvert, drógum úr ýmsum útgjöldum, jukum aðhald og fleira. Hins vegar var engin aðhaldskrafa gerð á svið eins og almanna- og atvinnuleysistryggingar og heilbrigðisstofnanir en þar hafa útgjöld haldið áfram að vaxa verulega eins og undanfarin ár.“

Bjarni segir að staðan hafi hins vegar um margt verið mjög ákjósan­leg síðustu misseri. Staða heimilanna hafi aldrei verið betri en í fyrra samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar og kaupmáttur hafi aukist mjög mikið síðustu ár.

„Við byggjum því á traustum grunni og verkefnið er fyrst og fremst að verja góðan árangur og tryggja stöðugleika. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra – ríkisins, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar.“