Greinandi hjá Landsbankanum telur að Iceland Travel, dótturfélag Icelandair Group sem nú hefur verið sett á sölu, sé ein af stærstu ástæðunum á bak við mikinn tekjusamdrátt ferðaþjónustufélagsins á milli fjórðunga.

„Við vissum að fjórði fjórðungur væri erfiður en uppgjörið var verra en við bjuggumst við. Árið 2019 verður erfitt ár,“ segir Sveinn Þórarinsson, greinandi í hagfræðideild Landsbankans, í samtali við Markaðinn.

„Það er ljóst að rekstrarumhverfið er ekki að fara að lagast einn, tveir og þrír. Þetta er enn erfiður markaður og það er margt sem félagið á eftir að vinna úr og laga. 2019 verður árið í það.“

Sjá einnig: Afkoma Icelandair talsvert undir væntingum greinenda

Afkoma Icelandair Group á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var, eins og Sveinn nefnir, talsvert verri en hagfræðideild Landsbankans gerði ráð fyrir. 

„Olíukostnaðurinn var meiri en við gerðum ráð fyrir og svo var ákveðið högg á tekjuhliðinni á fjórðungnum. Ég held að það skrifist að miklu leyti á Iceland Travel. Ferðamenn eru hættir að kaupa pakkaferðir,“ segir Sveinn.

Tekjur Icelandair Group af ferðaþjónustu drógust saman um 27,7 prósent á milli fjórðunga. Til samanburðar lækkuðu umræddar tekjur um 6,2 prósent á þriðja ársfjórðungi síðasta árs og 0,4 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins.

Sveinn nefnir einnig launakostnaðinn sem dæmi um það sem kom á óvart í uppgjörinu.

„Sá kostnaðarliður var ýktari en við bjuggumst við. Það er nánast engin nýting á flugmönnum yfir vetrarmánuðina og eins og Bogi [Nils Bogason, forstjóri] hefur nefnt sjálfur mun það halda áfram á fyrsta fjórðungi ársins 2019.“

Sjá einnig: Býst við „miklu meiri“ aga á fram­boðinu

Þá eru áform flugfélagsins um 10 prósenta vöxt á þessu ári lægri en greiningardeildin bjóst við. „Þeir sjá lág flugverð og enn mikla samkeppni þannig að það er ekki gáfulegt að vaxa mikið í því umhverfi.“

Markaðurinn beið eftir afkomuspá

Icelandair Group hyggst ekki gefa út afkomuspá fyrir árið 2019 á þessu stigi. Ástæðurnar eru sagðar meiri óvissa í tekjuspám farþegatekna en áður sem og óvissuástand á íslenskum vinnumarkaði.

„Markaðurinn var að bíða eftir því að Icelandair því hvernig Icelandair sæi afkomuna þróast á árinu 2019 en það er mikil óvissa og erfitt að gefa út áætlun á þessum tímapunkti.“

Spurður hvort Icelandair hefði átt að gefa út afkomuviðvörun vegna uppgjörsins svaraði Sveinn neitandi. EBITDA Icelandair - afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - væri í lægra enda afkomuspár félagsins. Slík viðvörun hefði verið óþarfi.