Það vakti athygli í síðasta mánuði þegar Heiðar Guðjónsson, fráfarandi forstjóri fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar, seldi öll hlutabréf sín í fyrirtækinu og lét af störfum sem forstjóri.

Félagið Gavia Invest keypti 12,72 prósenta hlut forstjórans á tæplega 2,2 milljarða króna. Gavia Invest er í dag stærsti hluthafi Sýnar.

Heiðar á ekki von á því að þessi viðskipti þýði að fjarskiptahluti fyrirtækisins verði skilinn frá fjölmiðlasamsteypunni.

„Raunar tel ég að það væri glapræði. Það gekk ekki sem skildi að sameina fjarskiptahlutann og fjölmiðlana í fyrstu, það verður að segjast, en okkur hefur tekist það núna. Fyrirtækið virkar mjög vel í dag sem heild og ég held að nýir hluthafar hafi einfaldlega tröllatrú á því sem hefur verið gert í fyrirtækinu undanfarin ár.“

Ég þurfti að taka upp hægari takt og þegar þetta tilboð kom þá leit ég á það sem ákveðin skilaboð sem rímuðu við tilmæli sem ég hafði fengið frá mínum læknum

Heiðar segist deila þeirri trú með fjárfestum enda hefði hann glaður viljað stýra fyrirtækinu áfram ef heilsand hefði ekki gripið í taumana.

„Það er það sem liggur að baki ákvörðuninni hvað mig varðar. Ég þurfti að taka upp hægari takt og þegar þetta tilboð kom þá leit ég á það sem ákveðin skilaboð sem rímuðu við tilmæli sem ég hef fengið frá mínum læknum.“

Heiðar segist ekki bara vera að tala um fjarskiptahlutann þegar hann segir að fyrirtækið eigi mikið inni.

„Það á ekki síður við um fjölmiðlana. Við höfum séð það síðustu ár að vefmiðlarnir eru gjörsamlega að sigra fréttaleikinn. Auglýsingatekjur vefmiðla hafa margfaldast á síðustu tíu árum á meðan auglýsingatekjur dagblaða hafa minnkað um helming.“

En þótt tækifærin séu mörg segir Heiðar bæði flókið og erfitt að reka fjölmiðil á Íslandi.

„Vegna þess að það er allt gert fyrir alþjóðlegu risana. Þeir þurfa ekki að gangast undir neinar skyldur og mega vera með hvaða auglýsingar sem þeir vilja.“

Heiðar tekur talsetningar á erlendu efni sem dæmi. Þar kristallist ólík staða eftir því hvort fjölmiðillinn er íslenskur eða erlendur.

„Menntamálaráðherra sendi bréf á Disney og bað þá náðarsamlegast um að nota íslenskar talsetningar sem voru þegar til staðar. Disney hirti auðvitað ekkert um að setja þær inn á sínar efnisveitur.“

„Ef við hefðum gerst sek um eitthvað slíkt hefðum við átt yfir höfði okkar himinháar sektir. Þannig að þarna, eins og á öðrum sviðum, er einfaldlega verið að hygla alþjóðlegri starfsemi á kostnað innlendrar,“ segir Heiðar Guðjónsson.