Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital, segir að ef ekki væri fyrir mikinn skort á fasteignum þá væri útlit fyrir að húsnæðisverð myndi hækka í samræmi við verðlag eða heldur hægar.

Jakobsson Capital gaf nýlega út skýrsluna Tryllingur á fasteignamarkaði þar sem farið er yfir stöðuna á fasteignamarkaði. Í henni kemur meðal annars fram að vegna skorts á húsnæði sé gert ráð fyrir töluverðri raunhækkun á fasteignaverði á næstu 3 árum eða milli 11 og 12 prósent.

Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital.

„Það er í raun skorturinn á fasteignum sem er vandamálið. Ég er í rauninni í sjokki yfir hversu mikill skortur er til staðar á húsnæðismarkaði. Þetta er vandamál sem þarf að vinda ofan af sem fyrst,“ segir Snorri en gagnrýnir jafnframt hversu litlar upplýsingar sé að finna um framboð af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

„Það vantar að þetta sé tekið saman skipulega. Það eru svo litlar heimildir um þetta og litlar upplýsingar um hversu mikið af húsnæði er að koma inn á markaðinn.“

Hann bætir við að vaxtahækkanirnar sem fram undan eru geri það að verkum að það muni eiga sér stað stöðnun í hækkunum.

„Þar sem von er á miklum vaxtahækkunum hefði maður gert ráð fyrir að það væru tiltölulegar litlar hækkanir í kortunum. Kannski 1-2 prósent árlega sem þýddi óbreytt að raunvirði en kannski örlítil lækkun. En sökum skortsins á húsnæði sem er í raun ævintýranlegur þá má búast við áframhaldandi hækkunum þar til markaðurinn fer að róast. Við spáum því að á árunum 2023 og 2024 mun eitthvað af íbúðum koma inn á markaðinn og horfum við til þess að hækkunin verði um 2 prósent að raunvirði árið 2024.“