Hreiðar Már Sigurðs­son, fyrr­verandi for­stjóri Kaup­þings, segir að bréf frá þeim Kevin Stan­ford og Karen Mil­len sé fullt af stað­reynda­villum. Hann kveðst ekki hafa unnið að því að taka yfir rekstur Kaup­þings í Lúxem­borg, þvert á það sem stendur í bréfinu. 

Það var Kjarninn sem birti opið bréf þeirra Stan­fords og Mil­len í dag, en þau stofnuðu tísku­vöru­fram­leiðandann Karen Mil­len á síðustu öld þegar þau voru gift. Þau hafa síðan slitið sam­vistum. 

Í bréfinu segja þau Hreiðar Má og Magnús Guð­munds­son, hjá Kaup­þingi, hafa „notað sig í svika­myllu“ sem á rætur sínar að rekja aftur til ársins 2001 þegar Kaup­þing átti í við­skiptum við tísku­fyrir­tækið Karen Mil­len. 

Misnotað traust og samsæri með Deutsche Bank

Þau rekja þar að­dragandann að falli bankanna hér á landi árið 2008 og lýsa sam­skiptum sínum við Hreiðar og Magnús. Þeir hafi mis­notað traust þeirra, til dæmis „með því að nota okkur í sam­­særi með Deutsche Bank til að lækka skulda­­trygg­ing­ar­á­lag Kaup­þings,“ líkt og segir í bréfinu. 

Þá segir Stan­ford að Magnús hafi tjáð sér að Kaup­þing í Lúxem­borg hafi keypt milljónir hluta í Kaup­þingi og að bréfin hefðu verið skráð á Stan­ford, sem ekki var kunnugt um slíkt. Það hafi því komið honum tals­vert á ó­vart þegar Kaup­þing krafði hann um 200 milljónir punda vegna láns til að kaupa „hina verð­lausu 17.300.000 hluti í bank­anum þann 19. ágúst 2008, án vit­neskju minnar eða neins sam­þykk­is“. 

Þá hafi Hreiðari tekist að „plata“ Seðla­banka Ís­lands til að lána Kaup­þingi 500 milljón evrur, vitandi það að gjald­þrot bankans væri yfir­vofandi. „[Þ]ú not­aðir svo 171 milljón evrur af pen­ingum landa þinna til að borga niður skuld Kaup­þings í Lúx­em­­borg við Lindsor Hold­ings Cor­por­ation til að und­ir­búa yfir­­töku þína á Kaup­þingi í Lúx­em­­borg.“ 

Bréf þeirra Stan­ford og Mil­len má lesa í heild sinni hér en þar er einnig að finna skjöl og upp­tökur af sam­skiptum Stan­fords og Hreiðars Más. 

„Þjóðin var ekki rænd“

Hreiðar segir í yfir­lýsingu sem hann sendi frá sér í dag að bréfið sé fullt af stað­reynda­villum. „Það er ekki rétt að ég hafi haft frum­kvæði að kaupum Kevin Stan­fords að hluta­bréfum í Kaup­þingi á árinu 2008. Ósk um þau kaup komu frá honum sjálfum og eru sam­tíma­gögn, meðal annars tölvu­póstar, sem stað­festa það,“ segir hann meðal annars. 

Einnig hafi Kaup­þing ekki milli­fært 171 milljón evra frá Seðla­bankanum til úti­bús Kaup­þings í Lúxem­borg. „Engar ó­eðli­legar eða háar fjár­hæðir voru milli­færðar frá Ís­landi til Lúxem­borgar eftir að lán Seðla­bankans var veitt. Þjóðin var ekki rænd og bæði ég og aðrir stjórn­endur Kaup­þings unnum í góðri trú í að­stæðum og á tímum sem eiga sér ekki for­dæmi,“ segir hann einnig. 

Þá hafi hann aldrei unnið að því að taka yfir reksturinn í Lúxem­borg, „hvorki fyrir né eftir hrun“. Hann segist enn­fremur aldrei hafa átt í sam­skiptum við Karen Mil­len né veitt henni fjár­mála­ráð­gjöf eða komið að fjár­festingum hennar. 

Aukinheldur hafi hann aldrei komið nærri deilum Stan­ford og slita­stjórnar Kaup­þings, sem staðið hafa yfir í tæpan ára­tug. „Það er ein­læg von mín að þær deilur leysist far­sæl­lega, en því miður get ég ekki haft nein á­hrif þar á, enda lauk störfum mínum hjá Kaup­þingi haustið 2008,“ skrifar hann að lokum. 

Yfir­lýsing Hreiðars Más í heild 

Vegna opins bréfs frá þeim Kevin Stan­ford og Karen Mil­len sem er fullt af stað­reynda­villum og birtist í net­miðlinum Kjarnanum fyrr í dag, tel ég rétt að koma eftir­farandi stað­reyndum á fram­færi: 

Það er ekki rétt að ég hafi haft frum­kvæði að kaupum Kevin Stan­fords að hluta­bréfum í Kaup­þingi á árinu 2008. Ósk um þau kaup komu frá honum sjálfum og eru sam­tíma­gögn, meðal annars tölvu­póstar, sem stað­festa það. 

Það er ekki rétt sem haldið er fram að Kaup­þing banki hf. hafi milli­fært 171 milljón evra af 500 milljóna evru láni Seðla­banka Ís­lands til Kaup­þings Lúxem­borgar. Engar ó­eðli­legar eða háar fjár­hæðir voru milli­færðar frá Ís­landi til Lúxem­borgar eftir að lán Seðla­bankans var veitt. Þjóðin var ekki rænd og bæði ég og aðrir stjórn­endur Kaup­þings unnum í góðri trú í að­stæðum og á tímum sem eiga sér ekki for­dæmi. 

Það er ekki rétt, eins og haldið er fram, að ég hafi unnið að því að taka yfir rekstur Kaup­þings í Lúxem­borg. Hvorki fyrir né eftir hrun. 

Í störfum mínum hjá Kaup­þingi átti ég aldrei sam­skipti við Karen Mil­len, hvorki sím­töl, fundi eða tölvu­póst­sam­skipti. Ég kom ekkert að fjár­festingum hennar og því síður veitti ég henni fjár­mála­ráð­gjöf. 

Kevin Stan­ford hefur átt í harð­vítugum deilum við slita­stjórn Kaup­þings í bráðum ára­tug. Þeim deilum hef ég hvergi komið nærri. Það er ein­læg von mín að þær deilur leysist far­sæl­lega, en því miður get ég ekki haft nein á­hrif þar á, enda lauk störfum mínum hjá Kaup­þingi haustið 2008. 

Virðingar­fyllst,  

Hreidar Már Sigurðs­son