Áliðnaðurinn á Ísland stendur vel í alþjóðlegum samanburði en staðan getur breyst mikið á skömmum tíma. Orkukostnaðurinn er mjög samkeppnishæfur en annar rekstrarkostnaður veikir samkeppnishæfnina. Þá verður lítil kolefnislosun íslensku álveranna sífellt mikilvægari eftir því sem skattlagning á losunina eykst á heimsvísu.

Þetta segir Martin Jackson, álsérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu CRU, í samtali við Fréttablaðið, en hann hélt erindi á morgunverðarfundi Landsvirkjunar í gær þar sem hann fjallaði um stöðu íslenskra álvera í alþjóðlegu samhengi.

„Íslenski áliðnaðurinn er í góðri stöðu í dag. Sjálfbærni er lykilatriði í áliðnaðinum í dag, og með vaxandi regluverki og hærri kolefnissköttum verður hún sífellt mikilvægari,“ segir Jackson, spurður um stöðu áliðnaðarins hér á landi.

„Það jákvæða við íslenska áliðnaðinn, þar sem álverin eru hagkvæm og knúin af vatnsaflsorku, er að hann stendur vel hvað varðar kostnað vegna þess að kolefnislosun mun á endanum leiða til hærri kostnaðar hjá álverum. Ef þú ert að losa lítið í dag þá verður kostnaðurinn hlutfallslega minni þegar fram í sækir.“

Spurður nánar út í það hvort íslensk álver séu samkeppnishæf í dag hvað kostnað varðar svarar Jackson játandi og nefnir að þau séu á meðal þeirra álvera sem eru með hvað lægstan orkukostnað á heimsvísu. Einungis álver í Kanada búi við hagstæðari orkukjör.

Framleiði virðismeiri afurðir

Aðrir kostnaðarliðir á borð við launakostnað veikja hins vegar samkeppnisstöðu íslenskra álvera. Þegar allur rekstrarkostnaðurinn er tekinn saman nær íslenski áliðnaðurinn rétt svo að vera í þeim þriðjungshluta álvera sem er hvað samkeppnishæfastur á alþjóðavísu.

„Þetta er góður staður til að vera á en það er ekki mikið svigrúm. Við verðum að hafa í huga að kínverski áliðnaðurinn hefur orðið sífellt samkeppnishæfari, sérstaklega á síðustu árum. Auk þess er vaxandi óvissa í kringum löggjöf um kolefnislosun þannig að staðan getur breyst mikið á skömmum tíma,“ segir Jackson og bendir á að hlutdeild Kínverja í álframleiðslu heimsins hafi aukist úr 10 prósentum árið 2000 í 56 prósent árið 2019.

Norski áliðnaðurinn er samkeppnishæfari en sá íslenski þegar allur rekstrarkostnaður er tekinn með í reikninginn en Jackson nefnir einnig að norsk álver séu að framleiða virðismeiri afurðir.

„Þú getur framleitt álstangir sem er einfaldasta varan til að framleiða en því sérhæfðari sem álafurðin verður þeim mun hærra verð er hægt að fá. Þetta eru Norðmenn að gera,“ segir Jackson og bætir við að framlegðin af virðismeiri álafurðum sé um þrisvar til fimm sinnum meiri en af álstöngum. Aftur á móti krefjist sérhæfðari framleiðsla mikilla fjárfestinga.

Skoða grænt álag

Þá dregur Jackson fram þá staðreynd að álverin hér á landi séu á meðal þeirra sem losa hvað minnst af kolefni. Tækifæri geti falist í því að aðgreina umhverfisvænar ál­afurðir frá óumhverfisvænum eins og þeim sem framleiddar eru í Kína.

„Íslensku álverin eru nú þegar að gera þetta. Hugmyndin er að hærra verð fáist fyrir þessar umhverfisvænu afurðir. Það er ekki raunin í dag en markaðstorg á borð við LME eru að íhuga að setja grænt álag á verðið.“ [email protected]