Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir að það sé að hennar mati ekki eðlilegt að verðlagning lyfja sé ákvörðuð af hálfu hins opinbera. Þetta sagði hún í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Ég myndi alltaf kjósa að það yrði frjáls álagning. Staðreyndin er hins vegar sú að lyf eru engin venjuleg vara. Þau eru í sumum tilvikum lífsnauðsynleg,“ segir Sigríður og bætir við að ef horft sé til Norðurlandanna þá sé ekki að finna dæmi um algjört frelsi í þessum efnum.

„Kerfið er líka með þeim hætti að ríkið tekur þátt í að niðurgreiða lyfjakostnað einstaklinga. Þetta virkar þannig að Lyfjastofnun ákvarðar heildsöluverðið og smásöluverðið. Síðan er líka óheimilt að veita afslætti. Þetta fyrirkomulag setur okkur mjög þröngar skorður þegar kemur að þessum tiltekna vöruflokki.“

Aðspurð um hvort það regluverk sem apótekin búi við sé of þungt í vöfum segir Sigríður að hún telji svo vera.

„Við á Íslandi erum til dæmis með einstakt ákvæði í lyfjalögum sem þekkist ekki á hinum Norðurlöndunum og það er mönnunarákvæðið. Í því felst að í stað þess að treysta þeim sérfræðingum sem vinna á þessu sviði til að ákveða mönnun þá eru yfirvöld að skipta sér af mönnun apóteka. Þetta þykir mér mjög sérstakt og þetta er í raun eina heilbrigðisstéttin sem þetta á við um. Þetta á til dæmis hvorki við um lækna né hjúkrunarfræðinga. Þessu þyrfti að breyta.“

Sigríður segir jafnframt að einnig mætti breyta skattlagningunni á lyf. „Ég tel að það væri til hagsbóta að taka þennan mikilvæga vöruflokk sem lyf eru og endurskoða virðisaukaskattinn. Mér finnst ótrúlegt að við séum með 24 prósent virðisaukaskatt á vöru sem er í mörgum tilfellum lífsnauðsynleg.“