Dágóður hluti þeirra sem eru skráðir á atvinnuleysisskrá um þessar mundir eru ekki í raunverulegri atvinnuleit og endurskoða þarf verkferla við greiðslu atvinnuleysisbóta. Þetta er mat Kristófers Oliverssonar, framkvæmdastjóra og eiganda Center Hotels. Kristófer er jafnframt formaður Samtaka fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu.

Viðtalið við Kristófer verður sýnt í heild sinni í sjónvarpsþætti Markaðarins á Hringbraut klukkan 19:30 í kvöld, miðvikudag.

Er þar rætt við Kristófer um vinnumarkaðsmál, úrræði stjórnvalda í kórónukreppunni og framtíðaráskoranir ferðaþjónustu á Íslandi.

„Við erum að opna þrjú hótel núna til víðbótar á næstunni og þurfum að ráða inn mjög mikið af fólki. Við erum með alla anga út að leita. Við fáum mikið af góðum umsóknum frá Vinnumálastofnun en við fáum líka mjög margar þar sem fólk er í raun ekki að leita að vinnu, það eru reyndar flestar [umsóknanna] þar sem fólk er ekki að leita að vinnu. Það er hins vegar mikilvægt að fara í gegnum þennan bunka og minnka listann. Við gerum það samviskusamlega,“ segir Kristófer.

Hann telur að ekki sé við Vinnumálastofnun eða starfsfólk hennar að sakast, heldur þurfi að endurskoða atvinnuleysisbótakerfið í heild: „Mín reynsla af starfsfólki Vinnumálastofnunar er þau standa sig ljómandi vel og gera sína vinnu. En það eru ákveðnir ferlar sem þyrfti að fara í gegnum þegar verið er að útdeila almannafé, atvinnuleysisbótum. Vafalaust væri rétt að skoða þessa ferla vel og þetta kerfi, þó að vonandi lendum við aldrei aftur í þessari stöðu eins og við erum í núna.“