„Ég vona innilega að eigendur félagsins horfi til þes að velja stjórnarmenn sem hafa reynslu og þekkingu á umhverfinu sem Icelandair starfar í,“ segir Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands sem á og rekur Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir. Hún hvetur hluthafa Icelandair – sem hefur fjölgað í 14 þúsund – að sækja aðalfund félagsins og taka kjósa.

Þórunn bauð sig fram til setu í stjórn Icelandair Group en komst ekki á lista tilnefningarnefndar félagsins sem lagði til óbreytta stjórn sem er skipuð Úlfari Steindórssyni, Guðmundi Hafsteinssyni, Svöfu Grönfeldt, Ninu Jonsson og John F. Thomas.

Eftir samráð við hluthafa, stjórn og helstu stjórnendur Icelandair Group setti nefndin fram viðmið um þá eiginleika sem voru taldir eftirsóknarverðir við val á einstökum stjórnarmönnum og skipan stjórnar í heild. Helstu viðmiðin voru reynsla af alþjóðlegum flugrekstri, leiðakerfum, flugflotastjórnun, söluleiðum, innleiðingu stefnu og stafrænni þróun.

Þórunn telur tilnefningarnefnd Icelandair hafi lagt of mikla áherslu á breidd í stjórninni. Í þeim krefjandi aðstæðum sem flugfélagið er í hafi hins vegar sjaldan verið mikilvægara að sem flestir stjórnarmenn hafi víðtæka reynslu og þekkingu á flugrekstri og ferðaþjónustu.

„Ég myndi til dæmis aldrei bjóða mig fram í stjórn Landsvirkjunar vegna þess að ég hef hvorki næga þekkingu á né reynslu af þess konar rekstri.“

„Ég myndi til dæmis aldrei bjóða mig fram í stjórn Landsvirkjunar vegna þess að ég hef hvorki næga þekkingu á né reynslu af þess konar rekstri,“ segir Þórunn. „Að sitja í stjórn félags á borð við Icelandair er grafalvegarlegt mál. Það krefst þekkingar og reynslu á gangverki félagsins og mörkuðunum sem það starfar á.“

Þórunn hefur starfað í ferðaþjónustu og flugrekstri um áratuga skeið, þar af tuttugu ár á ólíkum sviðum Icelandair. Eftir að hafa lokið störfum hjá Icelandair árið 1998 keypti Þórunn bílaleiguna Avis-Iceland sem hún byggð upp og seldi síðan árið 2005. Þá hélt hún til Bandaríkjanna til að stýra stórum tveimur stórum ferðaþjónustufyrirtækjum sem áttu í viðskiptum við stærstu flugfélög heims.

Eftir rúm sex ár í Bandaríkjunum lá leiðin aftur heim til Íslands árið 2011. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðsdeildar Iceland Express í tæp tvö ár og síðan framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands. Þórunn segir að markaðsmálin séu ein stærsta áskorunin sem Icelandair stendur frammi fyrir.

„Það voru gerð gríðarleg mistök árið 2018 þegar söluskrifstofum var lokað. Hver sá sem hefur þekkingu á mörkuðum Icelandair og söluleiðum hefði aldrei tekið þá ákvörðun að slökkva á sölukerfinu, þetta var algjört glapræði,“ segir Þórunn.

„Að ná þessum viðskiptum til baka verður einn af lykilþáttunum í viðspyrn Icelandair ásamt lækkun á rekstrarkostnaði,“ bætir hún við. „Það þarf öflugt fólk í stjórnina sem þekkir bæði félagið og markaði þess mjög vel.“