Ísland er með kjörið loftslag fyrir rafbíla og engin dæmi eru um það á Íslandi að rafhlaða í rafbíl hafi orðið fyrir skemmdum vegna loftslags. Þetta segir Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld.

„Það gerist mjög sjaldan hér á landi að við fáum mikið frost, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Við fáum aldrei mikinn hita heldur en þessi tvö atriði hafa hvað mest áhrif á rafhlöðurnar sjálfar,“ segir Tómas og bætir við að þetta hafi verið vandamál fyrir um áratug síðan en sé ekki til staðar í dag.

„Rafbílar í dag eru framleiddar allt öðruvísi en rafbílar fyrir 10 árum síðan en á þeim tíma voru rafbílarnir í erfiðleikum með mikinn kulda og mikinn hita. En í dag er það ekkert vandamál.“

Tómas segir auk þess að í raun sé framleiðsla á rafbílum ekki óumhverfisvænni heldur en eldsneytisbílum.

„Það hafa verið miklar vangaveltur í kringum þetta hræðilega kóbalt sem er notað í rafhlöðurnar og á að vera svo hræðilegt fyrir umhverfið. Síðan kemur í ljós að 80 prósent af kóbalti í heiminum er notað til að hreinsa díselolíu en ekki til að framleiða rafhlöður. Þetta er búið að vera mikill skotgrafhernaður í kringum framleiðslu á rafbílum. En kjarni málsins er sá að framleiðsla á rafbílum er ekki meira mengandi en framleiðsla á eldsneytisbílum.“