Hörð átök á vinnumarkaði munu skaða orðspor og framtíðarafkomu fyrirtækja í gistiþjónustu. Þetta er haft eftir Kristóferi Oliverssyni, formanns FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og eiganda CenterHotels, í frétt Morgunblaðsins.

„Maður hugsar það ekki til enda ef skæruverkföllum verður beitt og reynt að loka fullbókuðum hótelum,“ segir Kristófer í samtali við Morgunblaðið, en CenterHotel-keðjan rekur sex hótel í miðbænum og er með tvö í byggingu.

„Það er mikill ábyrgðarhluti. Því ef gestirnir ná að koma til landsins geta þeir aldrei komið að lokuðum hótelum. Sjálfsagt eru menn að vinna í því að gera þær ráðstafanir sem unnt er hver um sig. Það verður mikill skaði fyrir orðspor okkar og framtíðarafkomu í greininni ef allt fer á versta veg og endar í hörðum átökum,“ segir Kristófer.