Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu hafa síðan í maí óskað eftir því að framlagning neikvæðs PCR-skimunarprófs fyrir Covid-19 við landamærin dugi til að komast undan sóttkví við komu til landsins, en ætíð fengið neikvæð svör frá stjórnvöldum. Eftir að heilbrigðisráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að hvorki sé lagastoð fyrir því að skylda fólk í annað hvort tvær sýnatökur með sóttkví á milli ellegar tveggja vikna dvöl á farsóttarheimili stjórnvalda við komu til landsins, hefur sóttvarnarlæknir lagt til hið sama og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafa óskað eftir síðan í maí. Þetta kemur fram í pistli Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra SAF sem birtist á Facebook í eftirmiðdaginn.

„Síðan í maí hefur svarið við því verið "það er vandkvæðum bundið í framkvæmd. Allan þann tíma hefur þó legið fyrir að fjölmörg önnur Evrópulönd hafa ekki átt í neinum vandkvæðum með að taka við slíkum vottorðum,“ segir Jóhannes Þór og heldur áfram: „SAF hefur spurt stjórnvöld hvaða vandamál séu við móttöku slíkra vottorða á Íslandi sem ekki eru vandamál í öðrum Evrópulöndum en ekki fengið nein svör við því. Hreinskilnislega hefur hins vegar augljóslega mátt lesa milli línanna að sóttvarnarlæknir stæði í veginum og að minnsta kosti einu sinni var svarið einfaldlega: Þórólfur segir að það sé ekki hægt.“

Jóhannes Þór segir að vinnubrögð sem þessi kallist á mannamáli hentistefna og feli í sér ólíðandi stjórnsýslu: „Skýringalaus neitun sóttvarnaryfirvalda á móttöku þessara vottorða hafði bein neikvæð áhrif á lífsviðurværi fólks um allt land síðastliðið sumar. Það er óumdeilanleg staðreynd. Ég lít svo á að sóttvarnaryfirvöld skuldi SAF skýringar,“ segir framkvæmdastjórinn.

Framkvæmdastjórinn rifjar svo upp fyrri störf sín í forsætisráðuneytinu við afnám gjaldeyrishafta. „Það er auðveldara að loka en opna. Það er auðveldara að herða takmarkanir en að slaka á þeim og það þarf hugrekki til að setja og framfylgja áætlun um afnám takmarkana og uppbyggingu til framtíðar.“

Pistil Jóhannesar má lesa hér.