Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, hvetur Gunnar Smára Egilsson, stofnanda Sósíalistaflokks Íslands, til að byggja ályktanir sínar um þróun launa á Íslandi á þeim óháðu hagtölum sem liggja fyrir en ekki úreltum spám.

Þetta kemur fram í pistli sem Ásdís skrifar í ViðskiptaMoggann og vísar hún til nýlegra fullyrðinga Gunnars Smára um að raunhækkun launa á Íslandi í fyrra sé langt frá því sem aðilar vinnumarkaðarins hafa fullyrt um. Benti hann á töflu frá Trade Union Congress sem sýndi Ísland í 10. sæti yfir raunvöxt launa á árinu 2018, í samanburði við önnur OECD ríki, með 1.5 prósenta hækkun.

Þá fullyrti hann að raunlaunahækkun síðasta árs á Íslandi væri jafnframt minni en sem nemur hagvexti á mann á árinu og sagði „… launahækkanir voru minna en 1 ⁄3 af aukningu lands framleiðslu á mann, álíka og í Bandaríkjunum, Eistlandi, Kanada og Noregi. Engin hættumerki þar.“

Ásdís segir að þegar rýnt sé í gögnin sem Gunnar smári vitnar í frá ofangreindu verkalýðssambandi sjáist að tölur þeirra um þróun raunlauna séu byggðar á spám en ekki rauntölum. Nú liggi hins vegar fyrir tölu um þróunina árið 2018.  Raunlaun á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2018 hafi hækkað að meðaltali um 3,8 prósent en ekki 1,5 prósent líkt og Trade Union Congress spáði.

„Með öðrum orðum þá hefur hækkun raunlauna verið með mesta móti miðað við önnur OECD-ríki. Hagstofa Íslands hefur einnig birt hagvaxtartölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins og mældist hagvöxtur á mann 2,2%. Raunlaunahækkanir á árinu 2018 voru því 1,75 sinnum meiri en sem nam hagvexti á mann en ekki þriðjungi líkt og Gunnar Smári hélt fram,“ skrifar Ásdís.

Mikilvægt að byggja á staðreyndum

Ásdís segir mikilvægt að byggja ályktanir um þróun launa á Íslandi á þeim óháðu hagtölum sem liggja fyrir á hverjum tíma, en ekki úreltum spám. Annað sé ekki uppbyggilegt. Staðan í íslensku efnahagslífi sé viðkvæm um þessar mundir og sú óvissa sem ríkir um niðurstöðu kjarasamninga sé nú þegar farin að hafa neikvæð áhrif.

„Krónan hefur veikst á undanförnum misserum, stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa verið hækkaðir og verðbólguvæntingar á uppleið. Þá eru væntingar heimila og fyrirtækja til stöðu hagkerfisins næstu sex mánuði í sögulegu lágmarki. Það er því sérstaklega mikilvægt að aðilar að kjaraviðræðunum og aðrir sem tjá sig um þróun lífsgæða Íslendinga reyni eftir fremsta megni að byggja á staðreyndum.“