Rafmyntin Bitcoin hefur fallið mikið í verði á þessu ári eða um 60 prósent af heildar virði sínu.

Hún hefur svo fallið í kringum 37% í þessum mánuði og er virði hennar nú í kringum 20 þúsund dollarar fyrir hverja einingu eða 2,6 milljónir íslenskra króna.

Kjartan Ragnars, stjórnarmaður og regluvörður hjá Myntkaupum segir að sveiflur í virði rafmyntarinnar séu eðlilegar og að hún taki reglulegum breytingum sem yfirleitt gangi til baka.

„Ef við tölum um þetta hlutfallslega eða í raun sögulega, ekki að það sé einhver vísbending um það sem gerist í framtíðinni, en sögulega þá hefur Bitcoin yfirleitt fallið um 80 til 85 prósent frá toppi,“ segir Kjartan og bætir við „Bitcoin skiptist í hringi eins og aðrir markaðir. Hækkunar fasa og lækkunar fasa. Ef við tökum desember 2017 þegar hann nær tæpum 20.000 dollara þá fer hann síðan niður í 3800 dollara í febrúar 2018, sem er 85% fall á 5 mánuðum. Samkvæmt því, ef það endurtekur sig, ættum við að eiga aðeins meiri sársauka eftir. Við gætum farið niður í 12 til 14 þúsund dollara“

Ef horft sé til lengri tíma er þróun myntarinnar sú að virði hennar fari hækkandi en þó með sveiflukenndum hætti segir Kjartan

„Ég reyni alltaf að tala með fyrirvörum en ég fer ekkert leynt með það að mín sannfæring er sú að Bitcoin er komið til að vera og mun hækka út í hið óendanlega í þessum sveiflum en sveiflurnar eiga að minnka með tímanum. Ef við gefum okkur að þetta sé að endurtaka sig enn eina ferðina og Bitcoin myndi þá botna í 12 til 14 þúsund dollurum og svo eftir eitt og hálft til tvö ár þegar það fer að styttast í næstu helmingum en það er yfirleitt þá sem næsti hækkunar fasi kemur. Ég vil helst ekki vera að segja einhverjar tölur en hlutfallslega ætti það að vera einhverstaðar í kringum 300 þúsund dollara og svo kæmi annar botn þar sem ætti að vera eitthvað í kringum 70 til 80 þúsund,“ segir Kjartan

Þrátt fyrir að virði Bitcoin hafi fallið mikið undanfarið telur Kjartan að myntin bjóði enn upp á mikla möguleika.
Mynd/getty

Munu ekki stoppa úttektir

Athygli vakti í síðustu viku þegar Celsius Network, eitt stærsta rafmyntar fyrirtæki heims, lokaði fyrir úttektir á reikningum viðskiptavina eftir að Bitcoin og aðrar myntir lækkuðu snarlega.

Kjartan segir þó grundvallar munur sé á Myntkaup og Celsius þar sem viðskiptamódelin séu ekki þau sömu.

„Þeir taka við Bitcoin eða ethereum eða öðrum rafmyntum og bjóða þér vexti, sem höfum reyndar verið að skoða að gera líka. En í bakendanum eru þeir að setja peningana áfram í svokölluð DeFi verkefni en sagan hefur sýnt að sú tækni er bara ekki örugg og ástæðan fyrir því að þeir eru núna að lenda í vandræðum er að það er svo mikið af eignum viðskiptavina læstar í þessum DeFi verkefnum og þá ráða þeir ekki við úttektarfjöldann,“ segir Kjartan.

Þannig virki Celsius talsvert eins og viðskiptabanki þar sem eignir viðskiptavina eru notaðar til þess að ávaxta virði þeirra sem geri fyrirtækinu kleyft að greiða vexti.

„Hjá okkur er módelið það að við bröskum ekkert með eignir viðskiptavina. Þetta bara allt geymt á coinbase, einn á móti einum. Þannig að ef allir viðskiptavinir okkar myndu taka út allt saman þá getum við tekið allt út. Þú leggur inn 500 þúsnud krónur og kaupir bitcoin. Þú greiðir okkur þóknun og það eru í rauninni einu tekjurnar okkar. Þannig er eina áhættan sú að Coinbase fari á hliðina og Coinbase er næst stærsta kauphöll í heimi og hún er skráð á Bandarískan markað,“ segir Kjartan.

Telur að stilla þurfi væntingum í hóf

Kjartan telur að þrátt fyrir að Bitcoin hafi fallið undanfarið sé líklegt að myntin muni rísa aftur. Þær ráðleggingar sem hann hefur til þeirra sem íhuga kaupa Bitcoin sé þó að stilla væntingum sínum í hóf

„Ég held að það sé mikilvægt fyrir fólk sem er að koma inn í þetta núna að það stilli væntingum sínum um tíma í hóf. Þú ert ekki að kaupa Bitcoin núna til að halda að það sé að fara að fimmfaldast á einu ári. Við erum að fara inn í bjarnarmarkað.“ Segir Kjartan.