„Það er augljóst af bréfasendingum lögmanna Halldórs, Quinn Emanuel, að ásakanir hans eru gerðar í fjárhagslegum tilgangi enda koma þar fram kröfur um greiðslur til handa honum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá Róberti Wessman sem barst fjölmiðlum rétt í þessu í kjölfar ásakana Halldórs Kristmannssonar, fyrrverandi framkvæmdarstjóra Alvogen sem Fréttablaðið fjallaði um í morgun.

Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að Halldór saki Róbert bæði um líkamsárás og hótanir í garð fyrrverandi samstarfsmanna og fjölskyldna þeirra, þar á meðal líflátshótanir.

Halldór sem hefur verið náinn samstarfsmaður Róberts til 18 ára, sendi stjórnum fyrirtækjanna bréf þann 20. janúar að vekja athygli á stjórnunarháttum og ósæmilegri hegðun Róberts.

Tvær alþjóðlegar lögmannsstofur skoðað málið

„Eins og fram hefur komið var fengin óháð alþjóðleg lögmannsstofa til að fara ofan í saumana á kvörtunum Halldórs. Talað var við tugi starfsmanna og farið yfir fjölda gagna og niðurstaðan var skýr. Til að tryggja enn betur trúverðugleika þeirrar skoðunar sem fram fór var önnur óháð lögmannsstofna fengin til að fara yfir ferli skoðunarinnar og staðfesta það,“ segir einnig í yfirlýsingu Róberts. Hann lýkur yfirlýsingu sinni á orðunum:

„Fyrir mig eru þessar ásakanir mjög mikil vonbrigði enda vegið að mínum setarsheiðri og persónu. Mér þykir mjög miður að samstarfi okkar Halldórs til 18 ára hafi lokið með þessum hætti.“

„Mér þykir mjög miður að samstarfi okkar Halldórs til 18 ára hafi lokið með þessum hætti.“

Lofaði að falla frá kröfum gegn brottvikningu Róberts

Frétt uppfærð 14:00, 29. mars.

Halldór Kristmannsson lofaði að falla frá öllum fjárhagslegum kröfum gegn fyrirtækjunum Alvogen og Alvotech og skrifa undir trúnaðarsamkomulag gegn því að Róberti Wessman yrði vikið úr starfi sem forstjóra. Þetta staðfestir Halldór í svari við fyrirspurn frá Fréttablaðinu.

Halldór gaf fyrirtækjunum sjö daga frest til að víkja Róbert úr embætti forstjóra gegn því að Halldór skrifaði undir trúnaðarsamkomulag. Þá segir einnig í bréfi frá lögmanni Halldór að gegn þessu geri hann engar fjárhagslegar kröfur á hendur fyrirtækjunum.

Fréttablaðið hefur undir höndum bréf lögmanna Halldórs til lögfræðistofunnar White & Case LLP, sem fór yfir kvartanirnar, þar sem Halldór er sagður miður sín yfir því að nefndin taki ásökunum ekki alvarlega.

Í bréfinu, sem er dagsett 15. mars 2021, er tekið fram að Halldór sé ekki að setja fram ásakanir til að gera fjárkröfu á hendur fyrirtækjunum. Hann sé reiðubúinn að gera sátt fyrirtækin staðfesti þau brottvikningu Róberts Wessman sem forstjóra innan sjö daga og endurráði Halldór. Þá muni hann falla frá öllum fjárkröfum gagnvart fyrirtækinu, en ekki gegn Róberti sjálfum.

Með yfirlýsingu Róberts fylgir einnig vikugömul yfirlýsing frá stjórn Alvogen, svohljóðandi:

Þann 20. janúar 2021 barst stjórn Alvogen bréf frá starfsmanni fyrirtækisins, þar sem fram komu kvartanir á hendur forstjóra fyrirtækisins, Róberti Wessman, og athugasemdir gerðar við starfshætti hans. Starfsmaðurinn gerði að auki fjárkröfu á forstjórann.

Stjórn Alvogen setti strax á fót óháða nefnd til að fara með málið fyrir hönd stjórnar. Róbert sagði sig jafnframt frá störfum stjórnar á meðan málið var til skoðunar.

Nefndin fékk alþjóðlegu lögfræðistofuna White & Case LLP til að fara ítarlega yfir kvartanirnar sem settar voru fram í bréfinu. Þá réði stjórnin Lex lögmannsstofu til að vera ráðgefandi varðandi það sem snýr að íslenskum lögum og íslenskri vinnulöggjöf.

Í athugun White & Case LLP á kvörtunum starfsmannsins fólst meðal annars að rýna fjölda gagna í málinu en að auki ræddi lögfræðistofan við starfsmanninn sem bar fram kvörtunina og tugi fyrrverandi og núverandi starfsmanna Alvogen. Allir starfsmenn sem rætt var við báru Róberti vel söguna. Þá bentu engin gögn til þess að eitthvað væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts.

Niðurstaða White & Case barst stjórn Alvogen þann 9. mars 2021. Niðurstaðan er skýr og ljóst að efni kvartananna á sér enga stoð. Ekkert bendir til þess að starfshættir Róberts Wessman séu þess eðlis sem greint er frá í bréfinu og engin ástæða er til að aðhafast neitt vegna þessa máls. Stjórn Alvogen ber fullt traust til Róberts og hans stjórnunarhátta. Stjórnin telur mikilvægt að upplýsa um málið og þannig iðka fullt gagnsæi af hálfu fyrirtækisins og framfylgja þeirri stefnu sem fyrirtækið hefur sett sér um að tryggja öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi.