Kormákur Geirharðsson, einn eigenda Ölstofu Kormáks og Skjaldar, segir að aðgerðir stjórnvalda, sem kynntar voru á dögunum og er ætlað að koma til móts við fyrirtæki vegna sóttvarnaaðgerða, séu illa ígrundaðar.

Aðgerðirnar sem kynntar voru snúast um að stjórnendur vínveitingastaða hafi heimild til að fresta gjalddögum á sköttum og tryggingagjaldi.

„Þetta er viðlíka því að pissa í skóinn sinn. Þetta mun bara gera það að verkum að við þurfum mjög langan tíma til að borga þau aftur upp því síðan þurfum við að borga næstu og erum því að borga tvöfalt,“ segi Kormákur og bætir við að það hafi verið afar óheppilegt að ríkisstjórnin hafi ákveðið að hækka áfengisgjöld nú um síðustu áramót.

„Það sem þeir gera er að þeir hækka áfengisgjaldið enn frekar til að borga þetta upp. Þeir fengu 15 milljarða í áfengisgjöld í fyrra. Það er einfaldlega kominn tími til þess að aðrir en við og fólkið í landinu blæðum fyrir þetta.“

Aðspurður hvaða aðgerðir hann myndi vilja sjá segir hann að stjórnvöld þurfi að greiða meiri styrki.

„Við eigum ekki að þurfa að borga undir starfsfólk sem fær ekki að vinna sökum sóttkvíar eða einangrunar. Ef við fengjum slíka styrki yrði ég nokkuð sáttur.“Hann segir jafnframt að fyrirkomulag viðspyrnustyrkja hafi ekki verið ásættanlegt.

„Þeir fundu tölu þannig að margir aðeins rétt slefa í það að uppfylla skilyrðin fyrir þessum styrkjum eða einfaldlega ná því ekki. Ef ég tek dæmi af okkur þá höfum við ekki fengið styrk í marga mánuði og ég þekki til margra sem hafa aldrei fengið styrk.“