Regluverk í kringum starfsemi banka er meira íþyngjandi hér en í nágrannalöndunum og íslensk fjármálafyrirtæki eru þau skattlögðustu í Evrópu. Þetta segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka í sjónvarpsþættinum Markaðinum sem sýndur var á Hringbraut í gær.

„Þetta var ágætlega dregið fram í Hvítbók um fjármálakerfið sem gefin var út fyrir tæpum tveimur árum. Þar var talað um hið svokallaða Íslandsálag. Við erum ekki aðeins með eitt minnsta hagkerfið í Evrópu og þar af leiðandi með lítinn skala í okkar starfsemi heldur erum við með meira íþyngjandi regluverk en nágrannalöndin og með hærri eiginfjárkröfur.“

Benedikt bætir við að við séum með minnstu kerfislega mikilvægu bankana í Evrópu starfandi hér og að þeir fylgi sama regluverki og stærstu bankar í Evrópu.

„Regluverkið sem bankarnir hér fylgja er í einhverjum tilfellum meira íþyngjandi því okkur hefur tekist að innleiða með þessum reglum sérstaka Íslandsútfærslu sem er meira íþyngjandi. Síðan er skattaumhverfið, þvert á það sem sumir halda fram, þá eru íslensk fjármálafyrirtæki þau skattlögðustu í Evrópu.“

Aðspurður hvaða breytingar hann myndi vilja sjá á regluverkinu segir Benedikt að þar sé mikilvægt að hafa í huga að við innleiðingu regluverks frá Evrópu verði ekki innleidd séríslensk útfærsla.

„Ég myndi hugsa mig tvisvar um þegar við erum að innleiða regluverk sem kemur frá Evrópu, því allt fjármálakerfið starfar eftir því regluverki, að innleiða ekki séríslenska útfærslu að því. Ég myndi líka horfa til þess að bankarnir hér eru að starfa á minni markaði og þeir eru ekki að starfa yfir landamæri eins og stóru evrópsku bankarnir en í því felst meiri áhætta að mínu mati og við ættum því að létta aðeins á regluverkinu með tilliti til þess.“

Benedikt segir að hann sjái gríðarleg tækifæri í íslenska hagkerfinu og þeim krafti sem býr í íslensku þjóðinni.

„Það er líka áhugavert að sjá hvernig Norðurslóðasamstarfið er að þróast. Við sjáum að það eru auknar fjárfestingar að koma frá Bandaríkjunum og Evrópu inn á þetta svæði. Það er námuvinnsla í Grænlandi og ferðaþjónusta bæði á Grænlandi og Færeyjum. Það er mikil uppbygging á innviðum og svo framvegis,“ segir Benedikt og bætir við að Norðurslóðasvæðið muni þegar fram líða stundir skipa aukinn sess í framleiðslukeðjunni og þjónustu við önnur hagkerfi.

„Í þessu felast gífurleg tækifæri fyrir Ísland sem er vel staðsett á þessu svæði,“ segir Benedikt.

Í þættinum var einnig rætt um rekstur Arion banka, aðstæður á fjármálamörkuðum, hvort banka­rekstur hafi breyst á undanförnum misserum, stafræna þróun og fjártækni.