Keppinautar Icelandair munu geta flogið farþegum fyrir 20 prósent minni kostnað árið 2024. „Það mun ekki ganga upp,“ segir Egill Almar Ágústsson, fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfis Icelandair og fyrrverandi ráðgjafi hjá Boston Consulting Group, í grein í Viðskiptablaðinu sem birtist í dag.

Þrátt fyrir nýja kjarasamninga hafi innri kostnaður dregist lítið saman, líklega einungis um fjögur prósent árið 2024, að hans mati.

Egill Almar segir að Icelandair sé ekki samkeppnishæft vegna þess hve kostnaður sé hár og hafi verið það undanfarin fimm ár. Líklega hafi stærsta vandamál Icelandair fyrir Covid-19 verið að kostnaður félagsins hækkaði umfram það sem félagið gat hagnast á. Svo hafi ekki verið raunin hjá helstu keppinautum á árunum 20017 til 2019. Því voru fargjöldin orðin ósjálfbær fyrir Icelandair en ekki hjá keppinautum.

Viðskiptamódel Icelandair er tvískipt: Farþegar eru annaðhvort á leiðinni til og frá Íslandi eða tengifarþegar yfir Atlantshafið. Egill Almar segir að flestir tengifarþegar velji Icelandair vegna þess að fargjaldið var meðal þeirra lægstu sem var í boði. Þannig nái Icelandair tengifarþegum sem annars hefðu flogið í beinu flugi hjá fullþjónustufélögum.

Hefur litla stjórn á verðum

„Icelandair hefur litla stjórn á því hvaða verði það selur miða til tengifarþega, því það þarf að undirbjóða flesta aðra á markaðinum, sem býr til einskonar verðþak. Félagið hefur meiri stjórn á verðum til og frá Íslandi, en þar er líka mikil samkeppni og að aukast. Þetta þýðir að helsta stjórntæki Icelandair til að búa til hagnað er að stjórna kostnaði sínum, en samtímis að gera ráð fyrir því að það hafi minni stjórn á fargjöldum – að markaðurinn ráði þeim,“ segir hann.

Egill Almar vekur athygli á að á á tveggja ára tímabili frá 2016 til 2018 hafi einingakostnaður félagsins hækkað um 17 prósent. Á sama tíma héldust einingatekjur félagsins nokkuð stöðugar. „Þessi hækkun á kostnaði leiddi til þess að hagur félagsins snerist úr sterkum hagnaði í mikið tap,“ segir hann.

Agli Almari þykir það skjóta skökku við að tilnefningarnefnd hafi lagt til að stjórn Icelandair ætti að sitja óbreytt áfram. „Félagið er ekki samkeppnishæft og hefur ekki verið það síðustu 5 ár. Það er út af því að kostnaður félagsins er of hár,“ segir hann.