Fjölbreytileikinn er einn helsti styrkleiki ferðaþjónustunnar á Íslandi og ekki er æskilegt að einblína eingöngu á þá ferðamenn sem dvelja lengur og eyða meiru.

Þetta sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í sjónvarpsþættinum Markaðinum sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gær.

„Dreifing á þjóðernum og dreifing á tegund ferðamanna er góð og við eigum að einblína á það. Þegar það verður samdráttur eða eitthvað sem hefur áhrif á eftirspurn í ferðaþjónustu á okkar markaðssvæðum þá er gott að hafa fleiri markaði til að ganga að,“ segir Skarphéðinn og bætir við að mikilvægt sé að huga að langtíma stefnumörkun fyrir ferðaþjónustuna.

„Betur borgandi ferðamenn eru ágætir en þeir kosta líka meira og það hefur áhrif á kostnað fyrirtækjanna að sinna þeim. Það þarf sérhæfð fyrirtæki til að sinna þeim og þetta eru ferðamenn sem eru með aðrar neysluvenjur og annað ferðamynstur en aðrir ferðamenn. Þeir eru líka oftar að breyta ferðaplönunum þannig ég held að það sé ekki nein allsherjar lausn á okkar málum að einblína á þá.“

Skarphéðinn segir að ljóst sé að endurreisn ferðaþjónustunnar sé hafin. Sumarið hafi gengið vel í greininni og vísbendingar séu um að tölurnar séu á pari við 2019. Ferðaþjónustan hafi með mikilli tekjustýringu náð að hækka verð þegar eftirspurnin tók við sér.

„Það er spurning hvernig kostnaðarliðurinn er að leika ferðaþjónustuna. Við erum að gera ráð fyrir því að fjöldi ferðamanna á þessu ári verði allavega ein og hálf milljón, sem er í samræmi við bjartsýnustu spár í upphafi árs.“

Skarphéðinn bætir við að ferðaþjónustan sé í raun komin á fullt skrið eftir tvö ár af heimsfaraldri.

„Það er alltaf mikið högg fyrir atvinnugrein þegar allir kúnnarnir hverfa og allar tekjur þurrkast upp. Stjórnvöld komu að með öflugum hætti og fyrirtækin sýndu mjög mikinn sveigjanleika. Þau gátu dregið úr kostnaði, sagt upp starfsfólki, lokað og svo framvegis,“ segir Skarphéðinn og nefnir að með því móti búi fyrirtækin að þessum aðgerðum núna og því að hafa brugðist við með þessum hætti.

Skarphéðinn segir að það sé hægt að vera bjartsýnn þegar kemur að ferðaþjónustunni og segist sannfærður um að hún eigi sín bestu ár eftir.

„Ég held það sé ágætt að vera bjartsýnn í þessum efnum. Við erum að koma út úr mjög góðu sumri. Eftirspurnin er talsvert meiri en reiknað var með og vonandi að menn hafi náð að halda aftur af kostnaði. Það eru áskoranir í haust og vetur sem snúa að verðlagshækkunum og verðbólgu í okkar markaðslöndum. Það er stríð í Úkraínu svo það er spurning hvort það verði strúktúrbreyting á ferðavenjum fólks.“

Skarphéðinn segir jafnframt að þegar heimsfaraldurinn reið yfir þá hafi ýmislegt setið á hakanum.

„Umhverfismálin eru stóru málin sem sátu á hakanum í Covid. Það mál hefur ekkert farið frá okkur.“

Í þættinum var auk þess rætt um nýsköpun í ferðaþjónustu, hlutverk Ferðamálastofu, hvað stjórnvöld geta gert til að bæta rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja og fleira.