Gunnar Jakobsson, varaseðlabanki fjármálastöðugleika, segir að Seðlabanki Íslands verði að hafa það í huga að erfitt geti reynst að vinda ofan af magnbundinni íhlutun þegar að því kemur. Þetta kom fram í máli Gunnars á Peningamálafundi í morgun sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir.

„Annað sem hefur sýnt sig – og sporin hræða þótt það eigi kannski ekki það sama við um Ísland – er að það er erfitt að snúa ofan af magnbundinni íhlutun,“ sagði Gunnar á fundinum þegar hann var spurður hvað þyrfti að varast í sambandi við magnbundna íhlutun. Hann nefndi að bandaríski seðlabankinn hefði lent í erfiðleikum með að vinda ofan af magnbundinni íhlutun en ítrekaði að margt væri ólíkt með aðstæðum í Bandaríkjunum annars vegar og Íslandi hins vegar.

„Það þýðir ekki bara að stíga inn í hringinn heldur verður maður líka að hugsa um hvernig maður stígur út úr hringnum.“

Gunnar ræddi einnig um leiðir til þess að efla verðmyndun á mörkuðum og stuðla þannig að fjármálastöðugleika. Ein þeirra er að rýmka heimildir vegna afleiðuviðskipta.

„Afleiðuviðskipti hafa slæmt orð á sér en þau eru heimil undir ákveðnum kringumstæðum í dag. Það þarf að skoða með hvaða hætti er hægt að leyfa frekari afleiðuviðskipti með gjaldeyri,“ sagði Gunnar og bætti við að hægt væri að setja stíf skilyrði fyrir þeim.

Núgildandi takmarkanir á afleiðuviðskiptum með gjaldeyri eru síðustu leifar gjaldeyrishaftanna. Í grein sem Ragnar Björn Ragnarsson, gjaldeyrismiðlari hjá Arion banka, skrifaði í Markaðinn fyrr í vetur færði hann rök fyrir því að Seðlabankinn afnæmi núgildandi takmörkun á gjaldeyrisviðskipti með því að leyfa stöðutöku í krónunni. Áhrifaríkasta leiðin til að bæta veltu og dýpt markaða væri að fá fleiri aðila að borðinu.

„Verði það gert geta til dæmis fjárfestar sem hafa trú á langtímastöðu hagkerfisins tekið stöðu með krónunni og stuðlað að heilbrigðari verðlagningu með framtíðarvæntingar í huga,“ skrifaði Ragnar.

Gunnar nefndi einnig að íslensku lífeyrissjóðirnir væru líklega einu lífeyrissjóðirnir í heiminum sem mega ekki ekki lána út bréfin sín.

„Ég held að við getum þakkað fyrir það, komandi inn í þessa kreppu, að við vorum ekki með fullt af erlendum aðilum sitjandi á skammtímafjárfestingum.“

„Þeir mega ekki reyna að fá aukaávöxtun á þær eignir sem þeir hafa til þess að liðka fyrir virkni á markaði. Maður getur ímyndað sér að lífeyrissjóðir geti lánað ríkisbréf, tekið sértryggð bréf að veði og fengið endurgjald fyrir þau sem myndu hjálpa við ávöxtun,“ sagði Gunnar.

Spurður hvort von væri á reglubreytingum er varða afleiðuviðskipti sagði Gunnar að þetta væru leiðir sem þyrfti að skoða. „Ég held að það sé ekki skynsamlegt að ýta til hliðar ákveðnum tegundum fjármálaafurða af því að þær reyndust illa á ákveðnum tíma.“

Þá sagði Gunnar að innflæðishöftin, þ.e. hin sérstaka bindiskylda á innflæði erlends fjármagns, sem var lækkuð niður í núll prósent vorið 2019, hefði reynst vel sem fjármálastöðugleikatæki.

„Ég held að við getum þakkað fyrir það, komandi inn í þessa kreppu, að við vorum ekki með fullt af erlendum aðilum sitjandi á skammtímafjárfestingum. Það má einfalda málið þannig að það eru tvær tegundir af fjármagni á ferð. Það er sú tegund sem trúir á efnahagslífið og fjárfestir til lengri tíma og síðan flóttafjármagnið sem er að leita að vaxtamun. Við viljum síður fá seinni hlutann þó að hann sé nauðsynlegur til að tryggja virkni markaða. Þessi bindiskylda var mjög heppileg sem fjármálastöðuleikatæki.“