Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hefur ákveðið að setja reglur varðandi hámark greiðslubyrðar húsnæðislána. Er það gert til að stemma stigu við aukna skuldsetningu heimilanna að undanförnu vegna fasteignakaupa. Þetta kemur fram í Fjármálastöðugleika sem birtur var í morgun.

Nýju reglurnar kveða á um að greiðslubyrði fasteignalána fari ekki yfir 35 prósent af ráðstöfunartekjum heimila en 40 prósent hjá fyrstu kaupendum. Nefndin ákvað jafnframt að afnema sveiflujöfnunarauka bankanna og fer hann í 2 prósent eftir tólf mánuði.

Í ritinu kemur jafnframt fram að eignaverð, þá einkum hlutabréfa og fasteignaverð, hafi hækkað verulega.

„Hlutabréfaverð hefur hækkað um 57 prósent á síðustu 12 mánuðum og er á suma mælikvarða orðið frekar hátt. Til að mynda mælist frávik þess frá langtímaleitni nú meira en það hefur verið frá árinu 2008. Fasteignaverð hefur einnig hækkað mikið, árshækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 11,6 prósent að raunvirði í lok ágúst, um 10 prósent á fjölbýli og um 15 prósent á sérbýli,“ segir í ritinu.

Þá kemur fram að staða stóru bankanna þriggja sé afar sterk. „Staða stóru bankanna þriggja er sterk. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er vel yfir lögbundnum lágmörkum. Bankarnir hafa greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum. Viðnámsþróttur þeirra er því mikill.“