Seðlabanki Íslands lagði fram tilboð í ríkisskuldabréf á ellefta tímanum í morgun sem nam samtals 360 milljónum króna að nafnvirði samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Um var að ræða ríkisskuldabréf á lengri endanum, RB28 og RB31, en óvíst var hvort lengri bréf yrðu hluti af uppkaupum bankans.

Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hafði hækkað nokkuð í dag en gekk síðan til baka og lækkaði eftir innkomu Seðlabankans. Hefur krafan á löngu bréfunum nú lækkað um 7 og 11 punkta. Seðlabankinn mun hafa boðið í bréfin á ávöxtunarkröfunni 3,15 prósent í bréfin RB31 og á kröfunni 2,98 prósent í bréfin RB28.

Eins og Markaðurinn greindi frá í síðustu viku seldi BlueBay Asset Management, eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfyrirtæki Evrópu, öll eftirstandandi ríkisskuldabréf sín fyrir liðlega 11 milljarða króna. Ávöxtunarkrafa skuldabréfanna lækkaði í kjölfarið vegna væntinga um að Seðlabankinn kæmi inn á markaðinn af krafti. Talið var að Seðlabankinn hefði ákveðið að vera í biðstöðu þangað til þrýstingur á markaði vegna sölu BlueBay minnkaði.

Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum, svokallaða magnbundna íhlutun, fyrir allt að 150 milljarða í mars, en þannig vildi bankinn tryggja að fjármagnsþörf ríkisins myndi ekki þrýsta upp ávöxtunarkröfunni. Áður en BlueBay gekk frá síðustu sölunni hafði Seðlabankinn aðeins keypt ríkisbréf fyrir um 900 milljónir króna.