Seðlabanki Íslands gekk frá kaupum í gær á aflandskrónum fyrir jafnvirði um 13 milljarða króna af bandaríska sjóðastýringarfyrirtækinu Loomis Sayles, sem hefur verið stærsti eigandi slíkra kvikra krónueigna um langt skeið. Gjaldeyrisviðskiptin voru gerð í gegnum Arion banka, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Loomis Sayles átti fyrir söluna um helming allra aflandskróna, sem námu í lok október samtals um 50 milljörðum, en umfang þeirra í hagkerfinu hefur farið minnkandi á síðustu mánuðum og misserum.

Seðlabankinn stóð einnig að kaupum á aflandskrónum af Loomis í apríl síðastliðnum fyrir á þriðja milljarð króna, eins og greint var frá í Markaðinum, en á þeim tíma hafði talsvert af slíkum kvikum krónueignum verið að leita úr landi í gegnum gjaldeyrismarkaðinn og sett þrýsting á gengi krónunnar.

Þá seldi Seðlabankinn sem kunnugt er umtalsvert af gjaldeyri úr forða sínum í haust samhliða því að evrópski skuldabréfasjóðurinn BlueBay Asset Management, sem var á þeim tíma stærsti eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa, var að selja bréf sín sem raskaði stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Í lok október seldi BlueBay að lokum allt sitt í ríkisbréfum – eftir að hafa selt fyrir samanlagt nærri 50 milljarða frá því í ágúst – fyrir liðlega 11 milljarða.

Í kjölfarið fór gengi krónunnar að styrkjast verulega – evran fór úr 165 krónum í 152 krónur í nóvember – en hefur gefið lítillega eftir að undanförnu. Í dag stendur gengið gagnvart evru í rúmlega 156 krónum.

Í lok október samanstóðu aflandskrónueignir að mestu, eða sem nemur 37 milljörðum, af innlánum og innstæðubréfum Seðlabankans, en aðrar eignir voru meðal annars ríkisbréf, ríkisvíxlar og önnur verðbréf.

Eigendum af­landskróna var í árslok 2018 heimilað að skipta þeim í gjaldeyri og flytja úr landi. Seðlabankinn hefur hins vegar sagt í yfirlýsingum sínum að hann muni tryggja að ekki skapist ójafnvægi á gjaldeyrismarkaði vegna gjaldeyrisútflæðis slíkra eigna.

Heildarumfang aflandskrónueigna, sem námu um 40 prósentum af landsframleiðslu í árslok 2008, minnkaði verulega vegna aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til, meðal annars með fjárfestingarleið Seðlabankans 2012 til 2015 og gjaldeyrisútboði fyrir aflands­krónueigendur í júní 2016. Þá minnkaði aflandskrónu­stabbinn um 100 milljarða króna í mars 2017, þegar Seðlabankinn náði samkomulagi við hóp aflandskrónueigenda um að kaupa krónueignir þeirra á genginu 137,5 gagnvart evru.

Loomis Sayles hafnaði hins vegar tilboði Seðlabankans á þeim tíma, rétt eins og sjóðir fyrirtækisins gerðu þegar þeir tóku ekki þátt í aflandskrónuútboði bankans, þar sem eigendum slíkra krónueigna bauðst að selja þær á genginu 190 krónur fyrir hverja evru.