Seðlabanki Íslands mun hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði þannig að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.

Þetta var ákveðið á aukafundi nefndarinnar í gærkvöldi, að því er fram kemur í tilkynningu sem hún hefur sent frá sér.

Þar segir að horfur séu á því að útbreiðsla COVID-19, aðgerðir til að hefta sjúkdóminn og efnahagslegar afleiðingar hans muni kalla á verulega aukningu útgjalda ríkissjóðs.

„Útlit er því fyrir að afkoma ríkissjóðs versni í ár og að hann þurfi að afla sér töluverðs lánsfjár með útgáfu ríkisbréfa. Að öðru óbreyttu dregur það lausafé úr umferð og þrýstir upp ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa sem truflar eðlilega miðlun peningastefnunnar á sama tíma og aðgerðir Seðlabanka Íslands miða að því að létta á fjármálalegum skilyrðum heimila og fyrirtækja,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Þessar aðgerðir marka ákveðin tímamót en með þeim fylgir Seðlabanki Íslands í fótspor annarra seðlabanka beggja vegna Atlantsála sem hafa ráðist í stórfelld bein kaup á skuldabréfum, bæði útgefnum af ríkissjóði og fyrirtækjum, eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna 2008 í því skyni að lækka langtímavexti á markaði og tryggja nægt lausafé.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur í þessum mánuði lækkað meginvexti bankans í tvígang um 0,5 prósentur, samanlagt um eitt prósentustig, og eru þeir nú 1,75 prósent. Þrátt fyrir vaxtalækkanir bankans hefur ákvöxtunarkrafan á lengri enda óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkað en vextir á útlánum meðal annars banka og lífeyrissjóða fylgja að jafnaði breytingum á kröfu umræddra bréfa.

Þannig snarhækkaði krafan síðastliðinn miðvikudag, sama daga og tilkynnt var um vaxtalækkun og afnám sveiflujöfnunaraukans ofan á eiginfjárkröfur fjármálastofnana. Var sú hækkun einkum rakin til þess að skuldabréfafjárfestar tóku illa í óvænta ákvörðun Lánamála ríkisins daginn áður um að stórauka útgáfu ríkisbréfa á öðrum fjórðungi ársins, þannig að hún geti orðið allt að fjörutíu milljarðar króna.

Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfa hjá Júpíter, sagði í samtali við Markaðinn í síðustu viku mikilvægt að Seðlabanki Íslands horfði til annarra seðlabanka og styðji beint eða óbeint við fjármögnun á hallarekstri ríkissjóðs.

Bankinn þyrfti að gefa afdráttarlaus skilaboð í þá veru „svo að markaðsvextir fari ekki að rjúka hér upp á versta tíma og eyði út þeirri slökun í peningalegu aðhaldi sem bankinn er að reyna að miðla áfram“.

Hann sagði hallarekstur ríkissjóðs hanga „eins og sverð Damóklesar yfir markaðinum“.