Íslenskum fjármálafyrirtækjum verður heimilt að greiða út arð á þessu ári, að því er kemur fram í nýrri yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands. Hefur fjármálaeftirlitsnefnd endurskoðað fyrri tilmæli sín um arðgreiðslur sem hafa verið í gildi frá því í apríl á næsta ári, en á þeim tíma hafði Covid-19 faraldurinn nýlega læst klóm sínum í heimsbyggðina alla.

Hvetur fjármálaeftirlitsnefnd fjármálafyrirtæki til hafa ákveðin atriði að leiðarljósi við ákvörðun um útgreiðslu arðs. Afkoma fyrirtækis þarf að hafa verið jákvæð á síðasta ári og áætlanir um eiginfjárþróun þurfi að sýna sterka stöðu næstu þrjú árin. „Mælst er til að mat fjármálafyrirtækis á hvoru tveggja verði borið tímanlega undir Fjármálaeftirlitið,“ segir í yfirlýsingunni.

Loks má fjárhæð arðgreiðslu eða kaupa á eigin bréfum ekki nema meira en 25 prósentum af uppsöfnuðum hagnaði áranna 2019 og 2020 eða sem nemur 0,4 prósentu lækkun á eiginfjárþætti A, hvort sem lægra reynist.

Núverandi tilmæli Seðlabankans um arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum gilda til 30.september næstkomandi: „Meðal annars er tekið mið af yfirlýsingu Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) frá 15. desember 2020. Í henni voru eftirlitsstofnanir í löndum sem eiga aðild að ESRB hvattar til þess að beina því til fjármálafyrirtækja sem sæta eftirliti þeirra að gæta ýtrustu varúðar við greiðslu arðs og kaup á eigin bréfum fram til 30. september 2021. EBA birti sama dag yfirlýsingu svipaðs efnis,“ segir fjármálaeftirlitsnefndin.

Mikil óvissa sé um þróun efnahagsmála næstu misseri og rík ástæða sé til að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu, segir fjármálaeftirlitsnefndin jafnframt.