Seðlabankinn greiddi Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, rúmar 18 milljónir króna við starfslok hennar hjá bankanum. Fram kemur í samningi sem bankinn gerði við Ingibjörgu vorið 2016, sem Fréttablaðið hefur fengið afhentan, að hún fékk alls 8 milljónir króna í námsstyrk við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og 60 prósent hlutfall af mánaðarlaunum í tólf mánuði. Fékk hún fjórar milljónir greiddar árið 2016 og aðrar fjórar árið 2017.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var Ingibjörg með um 1,4 milljónir í mánaðarlaun. Gera það alls átján milljónir.

Ingibjörg Guðbjartsdóttir var framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á árunum 2009 til 2017, hún fór í námsleyfi árið 2016.
Fréttablaðið/Pjetur

Óskað var fyrst eftir afhendingu samningsins í nóvember í fyrra en því var hafnað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skikkaði bankann til að afhenda samninginn í sumar. Í kjölfarið var blaðamanni stefnt til að fá úrskurðinn felldan úr gildi, þeirri kröfu var hafnað í Héraðsdómi Reykjaness á föstudaginn. Með afhendingu samningsins til blaðsins í kjölfar dóms héraðsdóms síðastliðinn föstudag er ljóst að Seðlabankinn hefur ákveðið að áfrýja ekki til Landsréttar.

Samningurinn var upphaflega munnlegur milli Más Guðmundssonar, þáverandi seðlabankastjóra, og Ingibjargar. Var það gert til þess að halda henni í starfi hjá gjaldeyriseftirlitinu. Samningurinn var svo skjalfestur í apríl 2016.

Í samningnum er ekki gerð krafa um að Ingibjörg snúi aftur til starfa til bankans.

„Fari svo að Ingibjörg kjósi að starfa á öðrum vettvangi að námi loknum og snúi ekki til starfa hjá bankanum, mun bankinn ekki eiga neina endurkröfu vegna ofangreinds styrks vegna skólagjalda og vegna launa, meðan á námsleyfi stendur,“ segir í samningnum.