Seðlabankinn greip inn á gjaldeyrismarkað í síðustu viku og seldi gjaldeyri fyrir krónur fyrir samtals um átta milljarða í því skyni að vega á móti snarpri lækkun á gengi krónunnar. Á föstudeginum nam sala Seðlabankans 3,6 milljörðum en bankinn hefur ekki selt jafn mikinn gjaldeyri á markaði á einum degi að minnsta kosti frá 2008.

Þrátt fyrir gjaldeyrisinngrip Seðlabankans hélt gengi krónunnar áfram að gefa eftir. Gengið hefur fallið um 12 prósent gagnvart evrunni frá áramótum en á móti Bandaríkjadal hefur krónan lækkað í verði um nærri 15 prósent.

Á sama tíma og gengi krónunnar hefur gefið eftir hafa verðbólguhorfur á markaði aðeins hækkað lítillega og eru í kringum verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólguvæntingar til tólf mánaða nema 2,2 prósentum en verðbólguvæntingar til tíu ára standa í 2,6 prósentum.

Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfa hjá Júpiter rekstrarfélagi, segir í samtali við Markaðinn ánægjulegt að sjá hvað verðbólguvæntingar hafa lítið risið. „Það helgast líklega af því að gríðarlegur slaki er í hagkerfinu, lækkun olíuverðs og flugfargjalda sem og væntingum um engar eða neikvæðar verðbreytingar á húsnæðismarkaði sem vega þungt á móti.“

Frá því í ársbyrjun 2017, þegar gjaldeyrisinngripastefna Seðlabankans var endurskoðuð eftir stórfelld kaup á gjaldeyri árin á undan, hefur meginmarkmið stefnunnar verið að minnka skammtímasveiflur á gengi krónunnar. Gengi krónunnar hélst nokkuð stöðugt á árunum 2018 og 2019 og lítið var um gjaldeyrisinngrip – kaup eða sölu – Seðlabankans. Í fyrra seldi bankinn gjaldeyri fyrir samtals 11,9 milljarða. Veltan á gjaldeyrismarkaði hefur aukist verulega á síðustu dögum og í liðinni viku nam hún um 20 milljörðum. Gjaldeyrissala Seðlabankans var því tæplega 40 prósent af heildarveltunni.

Það stóra efnahagsáfall sem við erum nú að lenda í er kannski ekki endilega að framkalla mikið meira gjaldeyrisáfall en við hefði mátt búast

Gjaldeyrisforði Seðlabankans stóð í 820 milljörðum við lok síðasta árs. Samtímis gengislækkun krónunnar hefur forðinn stækkað í krónum talið og má því áætla að hann sé í dag um 900 milljarðar, eða sem nemur um 30 prósent af landsframleiðslu.

Agnar bendir á að það sé áhugavert að setja þróunina hér á landi í samhengi við annan lítinn gjaldmiðil, nýsjálenska dalinn, en hann hefur veikst um 13 prósent á móti Bandaríkjadal frá áramótum. „Á Íslandi eru útflutningstekjur tengdar ferðaþjónustu um 30 prósent, og við í tíunda sæti á meðal þjóða heims sem eiga hvað mest undir þeirri atvinnugrein, á meðan Nýja-Sjáland er í 25. sæti. Það stóra efnahagsáfall sem við erum nú að lenda í, hjá okkur stærstu útflutningsatvinnugrein, er því kannski ekki endilega að framkalla mikið meira gjaldeyrisáfall en við hefði mátt búast,“ að sögn Agnars.

Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfa hjá Júpiter.

Ljóst er að efnahagsáhrifin af útbreiðslu kórónuveirunnar verða veruleg fyrir ferðaþjónustuna. Viðmælendur Markaðarins innan greinarinnar eru nú farnir að gera ráð fyrir því í sínum sviðsmyndum að heildarfjöldi ferðamanna kunni að dragast saman um nærri helming frá 2019 og verði um 1.200 þúsund. Það kunni að þýða samdrátt í gjaldeyristekjum upp á 150 til 200 milljarða en í fyrra námu útflutningstekjur ferðaþjónustunnar um 486 milljörðum.

Mikil lækkun á gengi krónunnar að undanförnu er meðal annars rakin til þess, að sögn viðmælenda á markaði, að útflutningsfyrirtæki hafi ekki verið að koma með gjaldeyri til landsins og skipta honum í krónur í sama mæli og áður vegna óvissunnar sem uppi er. Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor og meðlimur í peningastefnunefnd, biðlaði í Silfrinu á sunnudag til útflutningsfyrirtækja að þau myndu „skila öllum gjaldeyri og vera ekki með spákaupmennsku með því að koma ekki með hann til landsins á réttum tíma“.