Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti bankans um 1 prósent, upp í 3,75 prósent, í morgun.

Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að verðbólguhorfur hafi versnað frá því í febrúar vegna afleiðinga innrásar Rússa í Úkraínu, auk þess sem slakinn í íslenska þjóðarbúinu sé horfinn.

Bankinn býst við að verðbólga fari yfir 8 prósent á þriðja ársfjórðungi, sem er 2,8 prósentum meiri verðbólga en spáð var í febrúar. Gert er ráð fyrir að samspil vaxtahækkana og hertra lánþegaskilyrða muni hægja á verðhækkun húsnæðis og innlendri eftirspurn.

Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum muni skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Af þessu er ljóst að landsmenn mega búast við frekari vaxtahækkunum Seðlabankans. Athyglisvert er að Seðlabanki Íslands hefur fimmfaldað stýrivaxtastigið hér á landi frá því í maí í fyrra, hækkað vexti úr 0,75 prósentum í 3,75 prósent, til að bregðast við verðbólgu sem að stærstum hluta stafar annars vegar af húsnæðisverði og hins vegar innfluttri verðbólgu vegna heimsfaraldurs og árásarstríðs Rússa gegn Úkraínu.

Ljóst er að vaxtatæki Seðlabankans virkar ekki gegn innfluttri verðbólgu og fram til þessa hafa vaxtahækkanir hans engin áhrif haft á þróun húsnæðisverðs hér á landi.

Á sama tíma og Seðlabankinn fimmfaldar stýrivexti hér á landi hefur Seðlabanki Evrópu haldið stýrivöxtum sínum óbreyttum í 0 prósent, þrátt fyrir að undanfarið hafi verðbólga mæst meiri inna ESB en hér á landi.