Seðlabanki Noregs segist vera að íhuga að grípa inn í þarlendan gjaldeyrismarkað með kaupum á norskum krónum til þess að stemma stigu við skarpri gengislækkun gjaldmiðilsins. Gengi norsku krónunnar hefur fallið um fimmtung á einum degi.

Seðlabankinn sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í morgun að vegna „sögulega mikilla“ gjaldeyrissveiflna væri hann að íhuga „hvort þörf er á inngripi inn á markaðinn með kaupum á krónum“.

Gengi norsku krónunnar hefur fallið skarpt í gær og í dag en lausafjárskortur, ótti fjárfesta við útbreiðslu kórónaveirunnar og verðhrun á olíu eru sagðir eiga stóran þátt í gengisfallinu. Alls hefur gjaldmiðilinn veikst um tuttugu prósent gagnvart evrunni á tveimur vikum, að því er segir í frétt Financial Times, og muna greinendur þar í landi ekki eftir viðlíka gengishruni á svo skömmum tíma á síðustu áratugum.

Verð á Brent-olíu hefur hríðfallið úr 66 dölum á tunnu í byrjun ársins í 26 dali nú. Norski olíuiðnaðurinn nemur um fjórtán prósentum af landsframleiðslu landsins og yfir þriðjungi af útflutningstekjum þess, að sögn norska olíu- og orkuráðuneytisins.