Arðgreiðslur evrópskra banka verða aftur heimilar á næsta ári að ströngum skilyrðum uppfylltum, að því er Bloomberg greinir frá. Hámarksarðgreiðslur til hluthafa á árinu 2021 mega jafngilda 15 prósentum af samanlögðum hagnaði áranna 2019 og 2020 eða sem nemur 0,2 prósentum af áhættuvegnum eignum, en hvort sem lægra er ræður því hver arðgreiðslan má vera að hámarki. Þetta er samkvæmt tilmælum Seðlabanka Evrópu.

Hlutabréf fjölmarga evrópskra banka lækkuðu í kjölfar þessara frétta, en vonir höfðu verið bundnar við heimildir til meiri arðgreiðslna banka. Tilmæli Seðlabanka Evrópu eru strangari en Seðlabanka Bandaríkjanna, sem hefur heimilað hámarksarðgreiðslur i samræmi við það sem greitt var út á öðrum fjórðungi þessa árs. Englandsbanki notast við sama hlutfall 0,2 prósent hlutfall áhættuveginna eigna en miðar við 25 prósent af hagnaði áranna 2019 og 2020. 

Hér heima hafa aðilar á markaði bundið vonir við að Seðlabanki Íslands fylgi línu Seðlabanka Evrópu í þessum efnum, en fram hefur komið að arðgreiðslugeta íslenskra fjármálafyrirtækja sé um 150 milljarðar sem stendur. 

Þegar kórónakreppan skall á heimsbyggðinni voru viðbrögð eftirlitsstofnana víða um heim að leggja tímabundið bann við arðgreiðslum eða gefa út tilmæli um að fresta þeim. Seðlabankinn gaf íslenskum bönkum þess konar tilmæli.