Tækifærin fyrir hið litla íslenska myntkerfi felast í fjölgun stýritækja og samhæfingu þeirra við bæði þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit. Það er heppilegri leið en fjármagnshöft til þess að koma í veg fyrir að fyrir það að miklar fjármagnshreyfingar komi hagkerfinu í uppnám. Þetta kom fram í ávarp Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á ársfundi bankans.

Ásgeir vísað til áhrifamikillar greinar Helene Rey, prófessors við London Business School, þar sem hún færði rök fyrir því að sjálfstæð peningastefna væri í raun ekki lengur í boði fyrir smærri myntsvæði vegna alþjóðavæðingar fjármagnsviðskipta – nema hægt væri að stýra fjármagnsjöfnuði með beinum eða óbeinum hætti.

„Við þekkjum atburðarásina: Um leið og lítill seðlabanki beitir stjórntækjum sínum til þess að kæla hagkerfið – svo sem með því að hækka vexti – myndi það laða að flóðbylgju fjármagns að utan sem kæmi efnahagslífinu í uppnám. Og já – í þessu samhengi teljast nánast allir seðlabankar heimsins litlir fyrir utan þann bandaríska og evrópska,“ sagði Ásgeir.

Rey lagði til fjórar mögulegar aðgerðir til þess að skapa rými fyrir peningastjórnun: Hnitmiðuð fjármagnshöft, alþjóðlega samhæfingu peningamálastefnu, styrkingu á miðlun peningastefnunnar með beitingu þjóðhagsvarúðartækja, og setningu varnarmarka fyrir fjármálakerfið með ströngu fjármálaeftirliti.

Ásgeir sagðist telja að fyrstu tveir kostirnir væru annað hvort óheppilegir eða ómögulegir fyrir Ísland. „Fjármagnshöft fela í sér mikinn velferðarkostnað – og þá sérstaklega hjá smærri löndum sem eru háð utanríkisviðskiptum – hvort sem er með vörur, þjónustu eða fjármagn. Höft skapa einnig fákeppni á fjármagnsmarkaði, leiða til hnökróttrar verðmyndunar og valda hærra vaxtastigi til lengri tíma. Beiting hafta hlýtur að teljast síðasta úrræðið – vera hagstjórn til þrautavara þegar fjármálastöðugleika er ógnað,“ sagði hann.

„Og eftir að hafa fylgst með viðbrögðum einstakra ríkja við Covid-19 faraldrinum hef ég litla trú á alþjóðlegri samhæfingu í peningamálum.“

Beiting þjóðhagsvarúðar og framfylgd fjármálaeftirlits snýst því í grunninn, að sögn Ásgeirs, um að minnka hvatana fyrir skammtímafjármagn að flæða inn í hagkerfið og síðan varna því að það fjármagns sem streymir komi fjármagnskerfinu í uppnám. „Þannig getum við skapað betri grundvöll fyrir sjálfstæða peningastefnu í litlum opnum hagkerfum. Við þurfum varnargarða en ekki höft.“

„Eftir að hafa fylgst með viðbrögðum einstakra ríkja við Covid-19 faraldrinum hef ég litla trú á alþjóðlegri samhæfingu í peningamálum.“

Að mati Ásgeir getur stór gjaldeyrisforði og markviss beiting á efnahagsreikningi seðlabanka gefið litlum hagkerfum ákveðið svigrúm til að setja sína eigin peningastefnu með því að vega á móti hreyfingum í fjármagnsjöfnuði – líkt og raunin hefur verið hérlendis. . Á síðasta ári seldi Seðlabankinn gjaldeyri fyrir 144,4 milljarða króna til þess að varna því að vaxtalækkanir leiddu til „of mikillar og tilefnislausrar lækkunar“ á gengi krónunnar.

„Jafnframt er hægt að sjá fyrir sér í framtíðinni að Seðlabankinn taki til sín ofgnótt af fjármagni sem gæti komið inn í landið – gerist þess þörf. Til framtíðar mun Seðlabankinn þurfa að beita efnahagsreikningi sínum til þess að tryggja viðunandi miðlun peningastefnunnar og hindra fjármálalegar aukaverkanir vegna hennar,“ sagði Ásgeir.

„Til lengri tíma liggur framtíð peningastefnunnar í fjölgun stýritækja – samhæfingu við bæði þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit. Þar eru tækifærin fyrir hið litla íslenska myntkerfi.“

Bersýnilegur ábati af sameiningu

Þá fjallaði seðlabankastjóri um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. „Bankinn hefur nú þann slagkraft að geta haft áhrif á hegðun fjármálastofnana og markaðsaðila til hins betra,“ sagði Ásgeir.

„Hið rúma ár sem liðið hefur frá sameiningu hefur verið annasamt – en samt fært okkur sanninn um ábata sameiningarinnar – hafi einhver efast í upphafi. Sem dæmi kom ábatinn af samþættingu gagna bersýnilega í ljós í farsóttinni með aukinni yfirsýn, bættri greiningu og samræmdum viðbrögðum.“