Miklar áskoranir eru hjá fjölmörgum fyrirtækjum hér á landi, ekki síst í iðnaði og verslun, vegna verðhækkana á hrávöru og flutningum. Samhliða þessu veldur vöru- og aðfangaskortur ýmsum vandræðum. Hagfræðingur Samtaka iðnaðarins (SI) segir að ástandið leiði til aukins kostnaðar við framleiðslu, meiri verðbólgu víða um heim og kaupmáttarskerðingar heimilanna.
„Þetta ástand tengist efnahagsbatanum í heiminum sem framboðshliðin hefur átt í erfiðleikum með að mæta,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.
Verðbólga há í sögulegu samhengi
Fordæmalítil verðbólga er í Bandaríkjunum, 6,2 prósent á ársgrundvelli og 4,9 prósenta verðbólga á evrusvæðinu. „Þetta er mjög mikil verðbólga í sögulegu samhengi og yfir verðbólgumarkmiði bæði bandaríska og evrópska seðlabankans,“ segir Ingólfur.
Sumar tegundir af hrávöru hafa stökkbreyst í verði á árinu. Liþíum hefur hækkað um 340 prósent. Þá hefur magnesíum hækkað um 153 prósent. Verslunarmenn, ekki síst í byggingariðnaði, segjast hafa lent í vandræðum vegna skorts á silíkoni og magnesíum.

Ingólfur segir að timbur og stál séu meðal þess sem hafi hækkað í verði, allt niður í smæstu skrúfur. Viðspyrnan í efnahagslífinu eftir Covid hafi fylgt hratt vaxandi eftirspurn, sem hafi orðið meiri en sem nemur framleiðslu- og flutningsgetu. Skortur á gámum hafi bæði tafið flutninga á heimsvísu og hækkað verð þeirra. Kostnaður við flutning á 40 feta gámi frá Austur-Asíu til Norður-Evrópu hefur nær tífaldast frá upphafi faraldursins.
„Ástandið hefur varað lengur en greiningaraðilar reiknuðu með í fyrstu,“ segir Ingólfur. „Við sjáum að bæði fyrirtæki og heimili þurfa að taka á sig aukinn kostnað, aukna verðbólgu og lækkun kaupmáttar. Þetta gæti líka leitt til hækkunar á vöxtum, ekki síst ef þetta hefur áhrif á verðbólguvæntingar.“
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist binda vonir við að hámarkinu sé náð í hrávöruverðshækkunum. Seðlabankinn hafi litla stjórn á erlendri verðbólgu, en verkefnið sé að gæta þess að áhrifin fari sem minnst út í kerfið.

Ásgeir varar við því að fyrirtæki noti tækifærið nú umfram aðstæður til að hækka vöruverð. Slíkt gæti haft áhrif á kjarasamninga. Þá sé ákveðin hætta á að viðvarandi fjögurra til fimm prósenta verðbólga leiði til agaleysis.
„Það er ekki hægt að útiloka að þetta ástand leiði til vaxtahækkana ef þessi þróun leggst með öðrum þáttum,“ segir Ásgeir. „En hækkun á hrávöru þýðir ekki bara tap heldur líka tækifæri fyrir útflutning á áli frá Íslandi og í sjávarútvegi.“
Svanur Karl Grjetarsson, eigandi MótX, byggingarfyrirtækis á íbúðamarkaði, segir dæmi um allt að 30 prósenta hækkun á timbri.
„Menn eru að reyna allt hvað þeir geta til að hagræða og stýra innkaupum þannig að verðhækkunum sé stillt í hóf. En það er högg þegar flutningskerfið lamast á þennan hátt og aðföng verða erfið. Það er ekki auðvelt að búa á eyju þegar svona árar,“ bætir hann við.