„Það er ekki til neitt hæft í því, sem ég hef séð í greinum ákveðinna þingmanna, að verið sé að veikja eftirlitsstofnanir með einhverjum hætti. Það er algjörlega rangt,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Ásgeir hvort bankinn hefði þau tæki sem þarf til að koma í veg fyrir að áfall í líkingu við fjármálahrunið endurtaki sig.

Í byrjun árs skrifaði Oddný grein þar hún fullyrti að ríkisstjórnin hefði veikt mikilvægar eftirlitsstofnanir með skipulegum hætti, meðal annars með sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

„Ég er skýr á því að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins styrkir báðar stofnanir í því sem þær gera,“ ítrekaði Ásgeir. Mikilvægt væri að geta haft yfirlit yfir og eftirlit með kerfinu í heild sinni. „Það er lykilatriði í því að hrunið endurtaki sig ekki að einn aðili beri ábyrgð á fjármálastöðugleika og hafi tækin til þess. Seðlabanki Íslands hefur þau.“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Ásgeir nánar út í tækin sem Seðlabankinn býr yfir til að hafa eftirlit með bankakerfinu.

„Seðlabankinn hefur yfirlit yfir fjármagnsflæði til og frá landinu og ef það er sett saman við heimildir eftirlitsins til að fylgjast með aðilum inni í landinu gefur það okkur miklu meira svigrúm til að bregðast við þáttum eins og peningaþvætti. Við getum kortlagt markaðinn og fylgst með eignarhaldi,“ svaraði Ásgeir.

Þá sagði Ásgeir að Seðlabankinn myndi leita til Alþingis til að styrkja eftirlitsheimildir gagnvart lífeyrissjóðum. „Við höfum miklar heimildir til að hafa áhrif á bankana sjálfa en takmarkaðar heimildir til að hafa áhrif á lífeyrissjóðina, bæði með tilliti til fjármálastöðuleika og eftirlits,“ sagði Ásgeir.

„Það er eitthvað sem við höfum haft dálitlar áhyggjur af. Einnig munum við þurfa aukin fjármálastöðugleikatæki til að koma í veg fyrir of miklar skuldsetningu á húsnæðismarkaði.“