Ásgeir Jónsson segir að lágir vextir erlendis séu „frábært tækifæri fyrir okkur til að ráðast í innviðafjárfestingar.“ Þetta kom fram á Peningamálafundi Viðskiptaráðs á Hilton Nordica.

Að hans sögn er þörf á slíkum fjárfestingum. Það væri að mörgu leyti betra fyrir stefnu ríkisfjármála að horfa til þeirra og fjárfesta meðal annars í vegakerfinu.

Kristrún M. Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka sem tók þátt í pallborðsumræðum á fundinum, segir að nú sé „tíminn til að læsa inn fjármögnun fyrir ríkið til að fara í fjárfestingar. Ekki vera hrædd við að taka ákvörðun.“

„Ekki vera hrædd við að taka ákvörðun,“ segir Kristrún M. Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að stýrivextir Seðlabanka Evrópu eru neikvæðir og á Íslandi eru þeir þrjú prósent. Stýrivextir á Íslandi hafa lækkað um 1,5 prósentustig frá því í vor.

372 milljarða króna viðhaldsþörf

Fram kom í skýrslu sem Samtök iðnaðarins birtu fyrir tveimur árum að uppsöfnuð viðhaldsþörf væri metin á 372 milljarða króna fyrir utan nýfjárfestingar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur sagt í frétt í Fréttablaðinu að í skýrslu sem OECD gaf nýlega út hafi komið fram að íslenskir innviðir væru komnir að þolmörkum.