Franskir saksóknarar hafa opnað rannsókn í tengslum við hugsanleg tengsl seðlabankastjóra Líbanons við peningaþvætti og skipulögð glæpasamtök. Þetta kemur fram hjá Al Jazeera.

Saksóknarar í Sviss hafa einnig rannsakað Salameh, bróður hans og fyrirtæki á þeirra vegum á þessu ári.

Áhlaup varð á flesta líbanska banka í síðustu viku þar sem landsmenn tóku út erlendar innistæður sínar í bönkum, svo sem Bandaríkjadali.

Salameh neyddist til að gefa út yfirlýsingu þess efnis að seðlabanki Líbanon væri ekki gjaldþrota, en skömmu áður hafði hann snúið við ákvörðun sinni um að stöðva úttektir á erlendum sparnaði.

Líbanskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Salameh og bróðir hans hafi millifært háar fjárhæðir úr landi á síðustu mánuðum, þrátt fyrir ströng gjaldeyrishöft sem eru í gildi. Greint hefur verið frá því um að fyrirtæki í eigu bróður Salameh, sem er skráð í Sviss, hafi fengið um 300 milljóna Bandaríkjadala millifærslu á reikning í Sviss, frá seðlabanka Líbanon. Svissnesk yfirvöld gerðu líbönskum stjórnvöldum viðvart um málið.

Djúp fjármálakreppa hefur leikið Líbanon grátt frá því á árinu 2019. Gjaldmiðill landsins, líbanska pundið, hefur hrunið um nánast 90 prósent gagnvart öðrum gjaldmiðlum á síðustu tveimur árum. Talið er að yfir 40 prósent heimila í landinu eigi vart fyrir mat og öðrum nauðsynjum.

Hagkerfi landsins hefur að sama skapi dregist saman um 40 prósent.

Riad Salameh hefur gegnt stöðu seðlabankastjóra í Líbanon í tæpa tvo áratugi. Hann var fyrst skipaður til sex ára árið 1993. Skipun hans hefur síðan verið endurnýjuð fjórum sinnum, síðast árið 2017. Salameh er þaulsetnastur seðlabankastjóra í heimi.

Áður en hann réðst til starfa hjá seðlabanka Líbanons starfaði hann um 20 ára skeið hjá bandaríska fjárfestingabankanum Merrill Lynch. Salameh heldur því fram að allur hans auður eigi uppruna sinn í störfum hans fyrir Merrill Lynch á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.