Seðlabanki Bandaríkjanna er reiðubúinn að grípa inn í ef verðbólgan fer úr böndunum. Þetta sagði Jerome Powell, seðlabankastjóri þar ytra. Hann lagði þó áherslu á að hann vænti þess að létta myndi á verðbólguþrýstingi síðar á árinu.

Hann sagði að verðbólga hafi aukist umtalsvert að undanförnu og að hún verði líklega nokkuð há á næstu mánuðum áður en hún fari að hjaðna. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Verðbólgan í Bandaríkjunum jókst í 5,4 prósent á ársgrundvelli í júní. Það hefur leitt til þess að ýmsir hafa áhyggjur af því að hagkerfið sé að ofhitna.

Powell telur að um tímabundið verðbólguskot sé að ræða. Nú sé til að mynda mikil eftirspurn á þeim sviðum þar sem hafi verið flöskuhálsar vegna samkomutakmarkana til að stemma stigu við Covid-19. Eftir því sem fólk fari að meira á stjá muni losna um flöskuhálsana sem myndi að hluta til snúa til baka þeim verðhækkunum. Verð á þjónustu, sem varð illa fyrir barðinu á samkomutakmörkunum, hafi einnig rokið upp eftir því sem hagkerfið opni á nýjan leik.

Sumir vilja að Seðlabankinn dragi snarlega til baka aðgerðir sem nýttar hafi verið til að koma hagkerfinu af stað. Ýmsir starfsmenn bankans hafa hins vegar áhyggjur af því að draga of hratt úr stuðningi við hagkerfið. Atvinnuleysi sé til að mynda enn hátt og komi bakslag í baráttuna við Covid-19 á heimsvísu kunni það hafa slæm áhrif á bandaríska hagkerfið.