Flugfélagið SAS er nú í miklum vanda vegna hækkandi verðs á eldsneyti. Danmarks Radio segir að ólíkt mörgum öðrum flugfélögum hafi SAS ekki tryggt sig með því að semja um fast verð þegar bensínverðið var lægra.
Danmarks Radio segir einfaldlega ekki vera rými fyrir hærri bensínkostnað nú þegar barist sé fyrir því að fá farþega um borð í flugvélarnar. „Það finnst vel fyrir þessu í veskinu hjá þessu aðþrengda félagi,“ hefur DR eftir Jacob Pedersen, sem fer fyrir greiningardeild hlutabréfa i Sydbank og fylgist náið með fluggeiranum.
Verðið á eldsneytinu hefur hækkað um 34 prósent á aðeins tveimur mánunuð að því er kemur fram í frétt DR. „Hátt eldsneytisverð kemur alvega sérstaklega illar niður á SAS. Í venjulegu árferði með venjulegan fjölda fluga myndi þetta þýða að SAS fær aukareikning upp á um einn og hálfan milljarð króna [30 milljarða íslenskra króna]. Svo þetta er afar dýrt,“ útskýrir Pdersen áhrifin á SAS.
Tonnið af flugvélabensíni kostar nú að sögn DR 4.800 danskar krónur, sem er jafnvirði um 97 þúsund íslenskra króna. Þann 27. apríl í fyrra hafi hins vegar verið hægt að kaupa sama magn fyrir aðeins 220 krónur eða á rétt ríflega 4.400 króna íslenskar enda farþegaflug þá í algerri lægð vegna Covid-19.
Með því að fastsetja verið taka flugfélögin vitaskuld einnig áhættu því verðið sveiflast og gæti lækkað en ekki hækkað frá því samið er um slíkt. Pedersen segir við Danmarks Radio að verðhækkunin ætti að benda til þess að fargjöld hækki. „En við vitum þó að flugfélögin eru að berjast fyrir því að fylla flugin svo ég held að að neytendur komi ekki til með að borga svo mikið af þessum aukareikningi,“ er haft eftir honum.

SAS kaus að veita fréttastofu DR ekki viðtal en sendi hins vegar skrifleg svör. Í þeim er bent á að óvissa sé um hversu margir muni kjósa að fljúga í nánustu framtíð.
„Önnur breyta er að fjárhagur fluggeirans er undir þrýstingi og viðsemjendurnir hafa verið lítt viljugir til að festa verðið til iðnaðarins,“ vitnar DR í svar Alexöndru Kaoukji, upplýsingafulltrúa hjá SAS.
Norska flugfélagið Norwegian er reyndar í sama báti og SAS samkvæmt upplýsingum félagsins til DR. „Við höfum ekki fest neitt í augnablikinu. Það er ekki sæist vegna stöðunnar á kórónaveirufaraldrinum þar sem er mjög mikil óvissa um eftirspurnina, meðal annars vegna breytilegra reglna um ferðalög,“ segir upplýsingafulltrúinn Andreas Hjørnholm við Danmarks Radio.