Samtök iðnaðarins segja að athugasemdir Landsnets við málflutning samtakanna í tengslum við væntanlega hækkun á gjaldskrá Landsnets séu auðhrekjanlegar: „Athugasemdir Landsnets eiga ekki við rök að styðjast og með auðveldum hætti hægt að hrekja með vísan í orð iðnaðarráðherra og skýrslur sem hafa verið unnar fyrir atvinnuvegaráðuneytið og Landsvirkjun. Athugasemdir Landsnets ættu því frekar að beinast að stjórnvöldum og Landsvirkjun en ekki að Samtökum iðnaðarins,” segir í umfjöllun um málið á vefsíðu samtakanna.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sagði í samtali við Markaðinn fyrr í vikunni að tímasetning gjaldskrárhækkunar Landsnets væri óskiljanleg og tímasetningin með ólíkindum:

„Í fyrsta lagi vegna þess sem sýnt hefur verið fram á, að arðsemi fyrirtækisins er langt umfram það sem ætla má hjá fyrirtæki með lögbundnum tekjumörkum. Í öðru lagi vegna þess að nýútkomin skýrsla Fraunhofer um íslenska raforkumarkaðinn sýndi með óyggjandi hætti að flutningskostnaður raforku á Íslandi er allt of hár. Í þriðja lagi vegna þess að iðnaðarráðherra hefur nýlega óskað eftir úttekt á fyrirkomulagi flutnings raforku á Íslandi með tilliti til kostnaðar notenda, sem er nú þegar mjög íþyngjandi.

Ástæða þess er að allir eru sammála um að vandinn sé raunverulegur en ekki er vitað hvar hann liggur nákvæmlega. Það þarf að greina til hlítar og gera viðeigandi ráðstafanir,” var haft eftir Sigurði fyrr í vikunni.

Landsnet sagði fyrr í dag að fyrirtækið hefði aldrei farið yfir leyfða arðsemi og óskaði eftir að umræðan færi fram á faglegum grunni. Samtök iðnaðarins svara þessu til með að benda á skýrslu greininaraðilans Summu, en meðal niðurstaðna þeirrar greiningar var að Landsneti væri tryggð hærri arðsemi en efni standa til, en fjallað var um málið í Markaðnum fyrir um mánuði síðan.

Samtökin svara einnig athugasemd Landsnets varðandi samanburð á flutningskostnaði raforku milli landa, sem var meðal umfjöllunarefna þýska ráðgjafarfyrirtækisins Summu. „Samtök iðnaðarins halda því fram að skýrsla Fraunhofer sýni fram á að flutningskostnaður raforku á Íslandi sé allt of hár. Erfitt er að finna rök í skýrslunni fyrir þessari fullyrðingu,” sagði meðal annars í umfjöllun Landsnets um málið. Samtökin benda á að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, hafi nýlega gert að umtalsefni og sett af stað greiningarvinnu af stað fyrirkomulag flutnings raforku á Íslandi:

„Í frétt um skýrslu Fraunhofer er m.a. eftirfarandi haft eftir iðnaðarráðherra: „Við þurfum auðvitað að halda vöku okkar og stuðla að eins samkeppnishæfu umhverfi og mögulegt er, til að tryggja að við getum áfram nýtt þau tækifæri sem felast í endurnýjanlegum orkuauðlindum. Skýrslan bendir til að við þurfum mögulega að huga að flutningskostnaði og ég hef ákveðið að setja af stað vinnu til að greina þann þátt betur. Einnig getur aukið framboð á raforku gegnt lykilhlutverki við að lækka verð sem og aukið gagnsæi og aukin samkeppni á orkumarkaði,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,” segir í pistli Samtaka iðnaðarins.